Tindastóll hefur bætt við sig þriðja erlenda leikmanninum en sá er breskur en kemur til landsins frá Bandaríkjunum þar sem hann var í skóla. Þegar hjá Tindastól eru þeir Maurice Miller og Curtis Allen sem kom til liðsins þegar Trey Hampton var sagt upp störfum. Myles Luttman er miðherji, 210 sm. að hæð. Karfan.is ræddi við Bárð Eyþórsson þjálfara Tindastóls en liðið er eitt það heitasta um þessar mundir með fjóra sigra í röð í Iceland Express deildinni.
,,Það á eftir að koma í ljós hvernig hann fellur inn í þetta hjá okkur en liðið byrjaði tímabilið ekki eins og það ætlaði sér en í dag erum við ánægðir með stöðuna eftir að hafa komið vel til baka. Við vitum vel að við erum ekki að spila okkar besta leik ennþá og finnum að við eigum nóg inni og okkur líður vel með það,“ sagði Bárður og bætti við að hann væri ánægður með stöðugleikann sem Tindastólsliðið hefði komið í varnarleik sinn.
Þá hefur Maurice Miller spilað vel undanfarið eftir frekar dræma byrjun hjá klúbbnum: ,,Nú stjórnar hann liðinu betur, tekur meiri ábyrgð og er jákvæður á æfingum, þar er hann einnig mikill leiðtogi sem og í leikjum og það er ég ánægður með og augljóst að honum líður betur og betur með það sem hann er að gera,“ sagði Bárður en aðspurður um hver væru markmið Skagfirðinga á tímabilinu var ekki mikið að hafa upp úr kallinum í brúnni: ,,Við tökum bara einn leik í einu og höldum okkur við það,“ sagði Bárður sposkur en strax á nýju ári fara Stólarnir í stórleik þegar gamla félagið hans Bárðar, Snæfell, kemur í heimsókn.
,,Það verður ábyggilega hörku leikur, Snæfell er á allt öðrum stað heldur en liðið ætlaði sér enda er þetta vel mannað lið. Deildin er samt bara það jöfn að ef þú mætir ekki klár í leikina þá bara tapar þú.“
Luttman er svo væntanlegur við fyrsta tækifæri til landsins en í dag er hann veðurtepptur í New York.