”Þetta var soldið skrítið því félagi minn í Þýskalandi sendi mér mynd af riðlinum en það var víst bara svona prufa af riðlinum fyrir dráttinn þannig að ég hélt að við værum að fara til Króatíu. En þegar ég sá svo riðilinn þá var það smá sjokk ég verð bara að vera hreinskilin með það.” sagði Jón Arnór Stefánsson um hans fyrstu viðbrögðum við þessum B-riðli á EM á næsta ári. ”Þetta er fáránlega erfiður riðill og ekki í mínum viltustu draumum hafði ég séð þetta enda svona. Ég vissi að þetta yrði okkur alltaf erfitt en þetta er vissulega í þyngri kantinum. En að sama skapi þá verður gaman að spila gegn þessum stóru þjóðum. Þetta eru að megninu til þjóðir þar sem ég hef spilað í deildum þannig að ég kannast við þessa kalla að einhverju leiti.” sagði Jón Arnór
Ég set pressu á Dirk (Nowitski) að mæta og spila.
“Ég hugsa að ég sendi honum (Dirk Nowitski) sms og set smá pressu á hann að spila með. Það verður gaman að spila gegn honum, ég hitti hann í sumar og það fór vel á með okkur eins og alltaf. Ég trúi ekki öðru en að hann verði með þar sem mótið er í Þýskalandi og þeir Þjóðverjar kunna þetta. Það mun koma til með að vera góð stemmning hjá þeim og vel að öllu staðið ef ég þekki þá rétt. Svo býst ég nú við að flestir körfuknattleiks áhangendur mæti til Berlínar með beinu flugi og upplifi þetta með okkur leikmönnum því þetta er frábært tækifæri að sjá körfubolta eins og hann gerist bestur.”
Engin leikur tapaður fyrirfram er klisja en…..
“Sko varðandi okkar séns í þessi lið þá veit ég ekki. Ég er smeikastur við Spánverjana því þeir eru bara svo ótrúlega þéttir. Ekkert til sem heitir vanmat hjá þeim og ef þeir geta unnið okkur með 100 stigum þá gera þeir það. Tyrkirnir hafa verið svona upp og niður, það er smá hroki sem loðir við þá og vanmat gæti þá fylgt í kjölfarið. Ítalirnir eru ofsalega sterkir og hafa verið að bæta sig gríðarlega eftir smá lægð. Serbarnir eru líka asskoti erfiðir. Stefan Markovic sem ég spila með núna er bakvörður í þessu serbaliði og þegar hann sá riðilinn eftir leikinn í gær leit hann á mig og hló svo bara, en allt í góðu samt sko. Þýskararnir eru á heimavelli og spila fast og stíft. Þrátt fyrir þessa upptalningu þá segi ég enn og aftur að við erum ekkert að fara þarna til að láta bara valta yfir okkur og við þurfum að fara með því hugarfari. ”Engin leikur er tapaður fyrirfram” er kannski klisja en ég verð bara að vera hreinskilin þegar ég segi að við erum ekkert að fara að vinna Spánverjana. En þetta er stóra sviðið og risastór gluggi fyrir ungu strákana og margir möguleikar munu koma til með að opnast fyrir þá efitr þetta.
Lærdómur fyrir leikmenn og sambandið í heild sinni.
Nú þurfum við að leggjast í undirbúningsvinnu bæði leikmenn og sambandið. Þarna fáum við bragðið af því að vera á stórmóti. Við þurfum að kynna okkur hvað hin liðin eru að gera í sinni undirbúningsvinnu og hvernig þau vinna sitt fyrir þetta mót. Þetta verður lærdómsríkt ekki bara fyrir okkur leikmenn heldur fyrir sambandið í heild sinni. Það þarf að hugsa það hvernig maður velur hópinn fyrir svona mót upp á framtíðina og framtíðar leikmenn. En umfram allt eigum við að njóta okkar og leggja okkur 100% fram þegar á hólminn er komið. Vera eins vel undirbúin andlega og líkamlega þannig að við göngum frá þessu verkefni með enga eftirsjá. Svo bara sjáum við til hvað kemur út úr því.
Teodosic í vikunni
Nú er bara að melta þetta og svo spilum við í Euroleague á fimmtudag og þar mun ég spila gegn Teodosic frá Serbunum. Ég læt hann finna fyrir mér og minni hann á mig í leiðinni.