13:03
{mosimage}
Pavel í leik gegn Möltu á Smáþjóðaleikunum
Pavel Ermolinskij lék með landsliði Íslands á Smáþjóðaleikunum á Kýpur í júní og var þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem Pavel lék með liðinu. Hann er á Íslandi í sumar og er í leikmannahópi Sigurðar Ingimundarsonar fyrir EM leikina í haust.
Karfan.is hitti á Pavel og spurði hann hvað væri að frétta af honum?
„Það er allt gott að frétta bara. Er bara að njóta sumarfrísins en er á sama tíma að æfa á fullu og reyna að bæta mig.“
Hvernig er staðan, verður þú áfram með La Palma?
„Nei, það verður bara enginn áfram í La Palma. Ég atti eitt ár eftir með þeim en fékk símhringingu um daginn þar sem að mér var tilkynnt að liðið sæji sér ekki fært um að skrá lið til leiks i ár. Þetta kom bara eins og þruma úr heiðskíru lofti.“
Hvað tekur þá við núna?
„Ég bjóst engan veginn við þessu og kom þetta mér dálítið á óvart. Ég var búinn að gera mér þá hugmynd að ég væri að fara aftur i þetta lið á næsta ári. Svo að maður er bara kominn aftur á byrjunarreit. Núna fer bara af stað sami process og alltaf, bið og samningsviðræður og allskyns hlutir sem ég var að vonast til að sleppa við. En þetta er bara hluti af þessu og maður verður bara að taka því. Ástandið a Spáni sem og annars staðar er mjög skrýtið og því mun þetta líklegast taka lengri tíma en venjulega. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá umboðsmanninum þá eru einhverjir athyglisverðir hlutir að gerast þannig að ég verð kannski einn af þeim heppnu sem geta gengið frá þessu sem fyrst.“
Nú varstu með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum, hvernig var að koma aftur í landsliðið?
„Það var bara mjög ljúft. Búin að vera leiðinleg saga með mig og landsliðið síðustu ár þannig að það var frábært að fá að spila með þeim aftur. Árangurinn á mótinu var kannski ekki sem bestur og það sást að menn voru ryðgaðir en núna ætlum við að nota sumarið vel til þess að finpússa hlutina.“
Verður þú með landsliðinu í haust?
„Já, ef ég verð i liðinu þá verð ég með. Er orðinn leiður á því að missa alltaf af skemmtilegustu leikjunum.“
Mynd: Heimasíða Smáþjóðaleikanna