Íslendingaliðin í Svíþjóð eru nú komin í jólafrí en Sundsvall Dragons og LF Basket léku í gærkvöldi sína síðustu leiki fyrir jól. Solna Vikings kláruðu sín mál fyrr í vikunni með stórsigri gegn ecoÖrebro. LF vann einnig í gærkvöldi en Sundsvall fékk skell í toppslagnum.
Sundsvall heimsótti Norrköping Dolphins þar sem höfrungarnir fóru með 118-85 sigur af hólmi! Hlynur Bæringsson gerði 11 stig, tók 11 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í liði Sundsvall og Jakob Örn Sigurðarson bætti við 10 stigum og 3 fráköstum. Þá var Ægir Þór Steinarsson með 7 stig og Ragnar Nathanaelsson bætti við 2 stigum. Södertalje og Uppsala mætast í dag í lokaleik deildarinnar fyrir jól þar sem Södertalje getur jafnað Sundsvall að stigum eða Uppsala skotið sér á toppinn með Norrköping.
Boras var ekki mikil fyrirstaða fyrir LF í gærkvöldi, lokatölur 88-70 þar sem Haukur Helgi Pálsson gerði 12 stig og tók 2 fráköst í liði LF sem er fyrir lokaleik deildarinnar í dag ásamt Boras og Södertalje 4.-6. sæti með 20 stig.
Jólafríið verður ekki langt en LF og Sundsvall mætast þann 29. desember en þann sama dag mætast ecoÖrebro og Solna Vikings svo landsliðsmennirnir í Svíaaríki verða að öllum líkindum ekki grimmir á því tvíreykta.
Staðan í sænsku deildinni er því orðin ansi þétt við toppinn eins og sést:
Grundserien
Nr | Lag | V/F | Poäng |
---|---|---|---|
1. | Norrköping Dolphins | 12/5 | 24 |
2. | Sundsvall Dragons | 11/5 | 22 |
3. | Uppsala Basket | 11/4 | 22 |
4. | Borås Basket | 10/5 | 20 |
5. | LF Basket | 10/5 | 20 |
6. | Södertälje Kings | 10/3 | 20 |
7. | Solna Vikings | 7/9 | 14 |
8. | KFUM Nässjö | 6/10 | 12 |
9. | Umeå BSKT | 5/12 | 10 |
10. | Jämtland Basket | 2/14 | 4 |
11. | ecoÖrebro | 2/14 | 4 |
Mynd/ Haukur Helgi og félagar í LF fara með sigur inn í jólafríið.