Lokaumferð riðlakeppninnar í Lengjubikar karla fór fram í kvöld þar sem Þór Þorlákshöfn og Keflavík tryggðu sér farseðilinn inn í fjögur fræknu, fyrir höfðu Grindavík og Snæfell tryggt sig inn og því ljóst hvaða lið munu skipa fjögur fræknu í DHL-Höllinni næsta föstudag. Valsmenn unnu svo í kvöld sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar þeir höfðu betur gegn Hamri 105-90 í Vodafonehöllinni.
Sigurvegari í A riðli (Þór Þorlákshöfn) mætir því sigurvegaranum í B riðli (Grindavík) og sigurvegarinn í C riðli (Snæfell) mætir því sigurvegaranum í D riðli (Keflavík).
Það verða því Grindavík og Þór Þorlákshöfn sem ríða á vaðið á föstudag í vesturbænum og strax að þeim leik loknum mætast Snæfell og Keflavík. Fyrir leikina í kvöld var ljóst að Þór þurfti sigur til að komast áfram og Keflavík þurfti að vinna Njarðvík með 14 stiga mun eða meira.
Þór Þorlákshöfn 97-81 Skallagrímur
Darrin Govens var nærri þrennunni með 24 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar og Mike Ringgold bætti við 22 stigum. Hjá Skallagrím var Darrell Flake með 21 stig og 7 fráköst og Sigmar Egilsson gerði 13 stig.
Keflavík 94-74 Njarðvík
Jarryd Cole fór mikinn í liði Keflavíkur með 27 stig og 16 fráköst, Charles Parker bætti svo við 23 stigum og 10 fráköstum. Hjá Njarðvíkingum var Cameron Echols með 24 stig og 9 fráköst og Hjörtur Hrafn Einarsson bætti við 15 stigum og 5 fráköstum.
Grindavík 97-71 Haukar
Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur í liði Grindavíkur með 22 stig og 4 fráköst og þá bætti Þorleifur Ólafsson við 14 stigum. Hjá Haukum Christopher Smith með 16 stig og 9 fráköst og Sævar Haraldsson gerði 15 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Þá er við hæfi að óska Ólafi Ólafssyni leikmanni Grindavíkur til hamingju með afmælið, sigur ekki amaleg afmælisgjöf frá liðsfélögunum.
Valur 105-90 Hamar
Igor Tratnik fór mikinn í liði Vals með 37 stig og 12 fráköst og Garrison Johnson bætti við 26 stigum og 5 fráköstum. Hjá Hamri var Brandon Cotton með 39 stig og 5 stoðsendingar og Halldór Gunnar Jónsson gerði 16 stig.
Fjögur fræknu fara svo fram í DHL-Höllinni, heimavelli KR, næstkomandi föstudag.