09:30
{mosimage}
Í dag kl. 16:00 hefst úrslitaeinvígi deildarmeistara KR og Grindavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leikið verður meistari og eru það KR-ingar sem hafa heimaleikjaréttinn og því er fyrsta viðureignin í DHL-Höllinni í Vesturbænum.
KR og Grindavík hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið í deildinni þetta tímabilið. KR tapaði aðeins einum leik og hafa Vesturbæingar ekki enn tapað heimaleik í vetur en til þess að Grindvíkingar verði Íslandsmeistarar verða þeir að vinna einn leik í DHL-Höllinni.
Búast má við miklu fjölmenni í DHL-Höllinni í dag og því um að gera að mæta nokkuð tímanlega á allar viðureignir þessara liða. Stöð 2 Sport mun sýna beint frá úrslitaleikjunum og skyldi engan undra að þeir yrðu vel á varðbergi því síðast þegar karlaleikur fór fram í Vesturbænum varð að fjórframlengja í einni mestu körfuboltaveislu síðari ára. Miklar vonir um brjálaða baráttu og glimrandi bolta eru bundnar við úrslitaeinvígið en á leikmannalistum þessara tveggja liða eru þeir ófáir töframennirnir sem geta galdrað fram mögnuð tilþrif.
Fjöldi leikja í yngri flokkum og neðri deildum fer fram um helgina en nánara yfirlit yfir þá leiki má nálgast í leikvarpi KKÍ – http://kki.is/leikvarp.asp