spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Skammt stórra högga á milli í Svíþjóð

Leikir dagsins: Skammt stórra högga á milli í Svíþjóð

 
Tveir leikir fara fram í kvöld hér heima á Fróni. Einn í Iceland Express deild kvenna og einn í 1. deild karla. Í Ljónagryfjunni mætast Njarðvík og nýliðar Fjölnis í úrvalsdeild kvenna en á Vatninu mætast nýliðar Laugdæla og Skallagrímur í 1. deild karla. Þá er komið að öðrum Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni.
Njarðvík opnaði leiktíðina með naumum 75-82 tapi gegn Keflavík í Iceland Express deild kvenna en í annarri umferð kom sigur og það gegn Snæfell á útivelli, 68-77. Í kvöld koma nýliðar Fjölnis í Ljónagryfjuna en Fjölnir hefur tapað báðum leikjum sínum í deildinni til þessa, gegn Grindavík og Hamri.
 
Í 1. deild karla eru nýliðar Laugdæla enn án stiga eftir tapleiki gegn Breiðablik og Þór Akureyri en Skallagrímur mætir á Laugarvatn í kvöld þar sem Borgnesingar hitta fyrir fyrrum liðsfélaga sinn Pétur Sigurðsson, þjálfara Laugdæla. Borgnesingar byrja leiktíðina vel, sigur á Hetti í fyrstu umferð og í síðustu umferð lönduðu Skallarnir 85-84 sigri gegn Valsmönnum.
 
Það er skammt stórra högga á milli í Svíþjóð þar sem í kvöld verður Íslendingaslagur þegar Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson í Sundsvall Dragons taka á móti Helga Má Magnússyni og liðsfélögum í Uppsala Basket. Bæði lið hafa leikið tvo leiki í deildinni, unnið einn og tapað einum.
 
Fréttir
- Auglýsing -