Í kvöld lýkur sjöundu umferð í Iceland Express deild karla með þremur leikjum sem allir hefjast kl. 19.15. Í gær voru þrír leikir á höfuðborgarsvæðinu en í kvöld er það landsbyggðin sem býður til körfuboltaveislu.
Leikir kvöldsins í IEX-deild karla:
Njarðvík-Stjarnan
Snæfell-Keflavík
Þór Þorlákshöfn-Fjölnir
Njarðvík-Stjarnan
Stjarnan er í 2. sæti með 10 stig og getur með sigri hindrað að Grindavík haldi fjögurra stiga bilinu milli liðanna á toppnum. Njarðvíkingar eru í 8. sæti með sex stig ásamt þremur öðrum liðum í mjög svo spennandi miðjubaráttu í deildinni.
Snæfell-Keflavík
Snæfell hefur unnið tvo síðustu heimaleiki sína og verja parketið í Stykkishólmi með kjafti og klóm. Keflavík er í 4. sæti með 8 stig og því geta Hólmarar með sigri jafnað Keflavík að stigum. Keflvíkingar töpuðu síðasta útileik og vilja væntanlega komast á beinu brautina á útivelli.
Þór Þorlákshöfn-Fjölnir
Þórsarar eru illir viðureignar á heimavelli með Græna drekan í broddi fylkingar, nýbúnir að leggja KR þar sannfærandi en töpuðu reyndar síðasta heimaleik í deildinni. Fjölnismenn eru í 9. sæti deildarinnar með sex stig eða jafn mörg stig og Þór og því til mikils að vinna fyrir bæði lið.
Leikir kvöldsins í 1. deild karla
19.15 KFÍ-Breiðablik
19.15 Hamar-Ármann
19.15 FSu-ÍA
Mynd/ Teitur Örlygsson mætir á gamla heimavöllinn í Njarðvík með Stjörnumönnum í kvöld.