spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Nítjándu umferð lýkur í kvöld

Leikir dagsins: Nítjándu umferð lýkur í kvöld

13:55
{mosimage}

(Logi og félagar í Njarðvík leita hefnda gegn KR í kvöld)

Þríri leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld og marka þeir lok 19. umferðar í deildarkeppninni. Allir leikirnir hefjast kl. 19:15.

Í Ljónagryfjunni mætast Njarðvík og KR þar sem Njarðvíkingar eiga harma að hefna eftir háðuglega útreið í DHL-Höllinni. KR vann fyrri deildarviðureign liðanna 103-48 sem er stærsti ósigur Njarðvíkinga í úrvalsdeild frá upphafi. Nokkuð vatn hefur runnið til sjávar síðan liðin mættust í DHL-Höllinni og hafa Njarðvíkingar fengið Heath Sitton til baka og bætt við sig hinum hávaxna Fuad Memcic. KR hafa líka tekið breytingu með endurkomu Brynjars Björnssonar sem kom heim úr námi við Francis Marion skólanum í Bandaríkjunum.

Búast má við hjartastyrkjandi leik á Sauðárkróki í kvöld þegar Tindastóll tekur á móti Þór Akureyri. Þórsarar mega ekki misstíga sig það sem eftir lifir leiktíðar og sigur þeim gríðarlega mikilvægur í kvöld. Svavar Atli Birgisson er þegar orðinn mikill Þórsaraskelfir og spurning hvort hann bjóði upp á enn eina sigurkörfuna gegn Akureyringum í kvöld. Tindastólsmenn tefla fram nýjum leikmanni að nafni Alphonso Pugh sem tekur stöðu Darrells Flakes sem yfirgaf Stólanna sökum langvarandi meiðsla.

Íslandsmeistarar Keflavíkur mæta svo í Ásgarð og leika gegn Subwaybikarmeisturum Stjörnunnar. Keflavík á í baráttu við Snæfell um 3. sæti deildarinnar og þurfa á sigri að halda annars verður ansi langt í 3. sæti þar sem Hólmarar hafa nú 26 stig eftir sigur á FSu í gær en Keflavík er með 22 stig og leikinn í kvöld til góða og geta að nýju minnkað muninn millum sín og Snæfellinga í 2 stig. Stjörnumenn hafa 16 stig í 6. sæti deildarinnar og eiga enn möguleika á því að ná 5. sætinu af Njarðvík sem hefur 20 stig.

Þrír leikir eru svo í 1. deild karla í kvöld. Haukar taka á móti Hamri kl. 20:00 að Ásvöllum í Hafnarfirði, UMFH mætir Þór Þorlákshöfn kl. 19:15 að Flúðum og KFÍ tekur á móti Ármanni á Ísafirði kl. 19:15.

[email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -