spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Haukar-Njarðvík í beinni

Leikir dagsins: Haukar-Njarðvík í beinni

Í kvöld lýkur 10. umferð í Domino´s-deild karla en þá eru tveir leikir á dagskránni. Haukar taka á móti Njarðvík í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði og verður leikurinn í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Þá mætast Þór Þorlákshöfn og Höttur frá Egilsstöðum í Icelandic Glacial Höllinni í Þorlákshöfn. 

Í 1. deild karla eru fjórir leikir á dagskránni í kvöld en þrír þeirra hefjast 19:15:

KFÍ – Fjölnir
Reynir Sandgerði – Ármann
Breiðablik – Skallagrímur
Þór Akureyri – Hamar

Ármann og Reynir eru á botni deildarinnar án stiga svo ljóst er að eftir kvöldið verður annað hvort liðið búið að næla í sín fyrstu stig í deildinni. Fjölnir getur með sigri á Ísafirði jafnað Val á toppi deildarinnar en Skagamenn urðu í gærkvöldi fyrstir liða til að leggja Val að velli. Þór Akureyri og Hamar eru jöfn að stigum, bæði með átta, svo ljóst er að hart verður barist fyrir Norðan í kvöld. Þá taka Blikar á móti Skallagrím og með sigri geta Kópavogsbúar jafnað Borgnesinga að stigum í deildinni. 

Í Domino´s-deildinni þá er óhætt að segja að Haukar og Njarðvíkingar hafa marga hildina háð og m.a. barist um Íslandsmeistaratitilinn hér í eina tíð. Í síðustu tíu deilarleikjum liðanna í Hafnarfirði hafa Njarðvíkingar vinninginn 4-6 en deildarleikur liðanna á síðustu leiktíð var „thriller“ sem lauk með 67-66 sigri Hauka. 

Aðra sögu er að segja af viðureign Þórs og Hattar en leikur liðanna í kvöld verður fyrsti deildarleikur félaganna í úrvalsdeild í Þorlákshöfn. Liðin hafa ekki mæst áður í deildinni í Lákahöfn en Hattarmenn eiga harma að hefna eftir að Þórsarar bundu enda á bikarkeppni Hattar. 

Mynd/ Kristinn Marinósson og Haukar taka á móti Njarðvíkingum í kvöld.

Fréttir
- Auglýsing -