spot_img
HomeFréttirLebron þurfti að hverfa af braut af öryggisástæðum

Lebron þurfti að hverfa af braut af öryggisástæðum

 

Eftir að hafa ákveðið að vera viðstaddur úrslitaleik Adidas Uprising sumardeildarinnar á miðvikudagskvöldið, þurfti leikmaður Cleveland Cavaliers, Lebron James, að hverfa á braut af öryggisástæðum, en í deildinni leika leikmenn á gagnfræðaskólaaldri. Leikurinn var á milli liða þeirra LaMelo Ball hjá Big Baller Brand og Zion Williamson fyrir SC Supreme.

 

Samkvæmt ESPN var James mættur á leikinn með fylgdarliði sínu og hafði hann ráðgert að horfa á leikinn frá hliðarlínunni, en vegna þess hversu margir voru komnir í húsið ákvað hann að hverfa á braut. Reyndar voru svo margir mættir í húsið að á tímabili var tvísýnt með hann færi nokkuð af stað. Lögreglan er sögð hafa skorist í leikinn og að grænt ljós hafi ekki verið gefið fyrir leiknum fyrr en mínútu áður en hann svo hófst.

 

Aðdráttaraflið að þessum leik var að sjálfsögðu einvígið milli þeirra Williamson, sem er talinn einn mest spennndi ungi leikmaður í Bandaríkjunum í dag og LaMelo Ball, sem er yngri bróðir nýjustu stjörnu Los Angeles Lakers í NBA deildinni, Lonzo Ball. Leikinn unnu Williamson og félagar hans í SC Supreme, 104-92. Williamson setti 28 á meðan að LaMelo skoraði 31 stig fyrir BBB.

 

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Lebron sýnir áhuga á leikjum Ball fjölskyldunnar, en eins og frægt er orðið var James mættur til þess að fylgjast með Lonzo í sumardeild NBA deildarinnar í Las Vegas fyrr í mánuðinum. Eitthvað þótti það ýta undir þær sögusagnir að hann ætli að söðla um næsta sumar, þegar hann er frjáls sinna ferða, og gera samning við Los Angeles Lakers.

 

Aðspurður hafði faðir Ball drengjanna, LaVar, sitt að segja um þetta atvik með Lebron. Sagði hann "Hann er ekki stærsti leikmaðurinn fyrir mér. Stærstu leikmennirnir fyrir mér eru drengirnir mínir. Mér er alveg sama um Lebron. Lebron gerir bara sitt, ég hef bara áhyggjur af drengjunum mínum, hef ekki áhyggjur af öllum öðrum hlutum".

 

 

Hérna er hægt að sjá leikinn:

 

Fréttir
- Auglýsing -