10:54
{mosimage}
(King James)
Stjörnum prýtt lið Boston beið ósigur gegn Cleveland Cavaliers í NBA deildinni í nótt. Lokatölur leiksins voru 109-104 Cleveland í vil á heimavelli þeirra Quicken Loans Arena. LeBron James fór á kostum í liði Cavs og sallaði niður 38 stigum, gaf 13 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Ray Allen var svo stigahæstur í liði Boston með 29 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Framlengja varð leik liðanna í nótt þar sem LeBron fór hreinlega á kostum. Hann gerði 11 af 17 stigum Cavs í framlengingunni og setti þar niður mikilvægan þrist sem kom heimamönnum í 99-95 og kveikti vel í þeim.
LeBron James er að leika fantavel um þessar mundir og hefur gert 37,5 stig að meðaltali í leik í síðustu sex leikjum ásamt því að vera með 10,2 fráköst og 9,5 stoðsendingar. Fyrir þetta afrek er hann kominn í hóp ekki ómerkari manna en Wilt Chamberlain og Oscar Robertson en þetta eru einu þrír leikmennirnir í sögu deildarinnar sem hafa náð viðlíka tölum í sex leikja hrynu.
Önnur úrslit næturinnar:
New Jersey Nets 103 – 110 Memphis Grizzlies
Vince Carter gerði 32 stig, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar fyrir Nets en félagi hans Jason Kidd landaði þrennu með 12 stig, 15 fráköst og 12 stoðsendingar. Þetta framlag þeirra félaga dugði þó ekki og Nets lágu heima. Pau Gasol gerði 22 stig og tók 6 fráköst fyrir Grizzlies.
Miami Heat 110 – 90 Charlotte Bobcats
Ricky Davis gerði 23 stig og tók 4 fráköst fyrir Heat en hjá Bobcats var Gerald Wallace með 16 stig og 5 fráköst.
Milwaukee Bucks 99 – 114 Philadelphia 76ers
Samuel Dalembert gerði 22 stig fyrir 76ers og tók einnig 8 fráköst en hjá Bucks var Michael Redd með 17 stig og 8 fráköst.
Chicago Bulls 90 – 78 Atlanta Hawks
Luol Deng gerði 22 stig fyrir Bulls og tók 9 fráköst en hjá Hawks var Joe Johnson með 21 stig og 5 stoðsendingar.
Denver Nuggets 110 – 112 Indiana Pacers
Spennuleikur þar sem Mike Dunleavy gerði 30 stig fyrir Pacers en hjá heimamönnum í Nuggets var Allen Iverson með 26 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst.
LA Lakers 106 – 99 Seattle Supersonics
Kobe Bryant gerði 35 stig tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar fyrir Lakers. Nýliðinn Kevin Durant var stigahæstur hjá Supersonics með 25 stig og 3 stoðsendingar.