Þórsarar lögðu heimamenn í Val fyrr í kvöld í áttundu umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Þór í 3.-4. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan Valur er í því 9. með 6 stig.
Karfan spjallaði við Lárus Jónsson, þjálfara Þórs, eftir leik í Origo Höllinni.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs ætlar aldrei að horfa á þennan leik aftur:
Jæja Lárus…þetta var sigur…og tvö stig…
Já…
…en þú ert ekkert að fara að horfa á leikinn aftur til að dást að liðinu þínu…?
Nei…við vorum rosalega flatir. Ég vissi það að við myndum verða flatir, bæði útaf því að það vantaði 2 lykilmenn hjá þeim, þá gerist það ósjálfrátt, og líka því strákarnir eru náttúrulega bara brjálaðir yfir dómaramistökunum sem voru gerð í Tindastólsleiknum, það voru bara tekinn af okkur sigur og dýrmæt stig. Þeim finnst bara að það hafi verið brotið á sér og það er ekkert gert í því…það eina sem við fáum er að ,,við sáum þetta ekki“…
Jájá…þetta situr svolítið í mönnum…
Já, ég fann það bara á liðinu núna í fyrri hálfleik. Svo var Stólaleikurinn líka bara hörkuleikur, framlengdur leikur og mikið tekist á svo hann situr ekki bara í hausnum heldur líka í löppunum.
Það er alveg hárrétt. En ég verð að segja að ég var eiginlega bara pirraður að horfa upp á þetta hjá ykkur í fyrsta leikhluta…þetta var bara svo ógeðslega lélegt!
Ég gæti bara ekki verið meira sammála þér! Við tókum mikið af röngum ákvörðunum, við vorum að skjóta þegar við vorum eiginlega ekki opnir en sleppa svo skotum þegar við vorum galopnir, fórum alltof lítið á hringinn og svo töpuðum við 12 boltum í fyrri hálfleik. Valsarar voru þá að fá margar sóknir…þetta er bara mjög ólíkt okkur því við erum að tapa að meðaltali 12 boltum í heilum leik. Það lagaðist svo í seinni, þá vorum við með 2 tapaða bolta.
Akkúrat, ég tók einmitt eftir þessu með töpuðu boltana. Mér fannst þó kannski mest muna um það að þeir sem voru á bekknum í þriðja leikhluta lyftu upp stemmningunni varnarlega og þið farnir að stoppa ítrekað, Valsarar skoruðu mjög lítið í þriðja, og reyndar í öllum seinni hálfleik…
Já, það er svolítið magnað þegar stemmningin er svona á körfuboltaleikjum! Þá skiptir máli að það séu 7 gaurar á bekknum að klappa og öskra! Það heyrist svo mikið í þeim og svo leikmönnunum inn á vellinum. Mér fannst líka koma þá smá jákvæðni í þetta, það var búið að vera smá pirringur í okkur, ,,af hverju erum við ekki að vinna, það vantar 2 lykilmenn hjá þeim…“
…einmitt…pínulítið eins og þetta væri leiðinlegt!
Já sem er fáránlegt þegar það er verið að spila körfubolta! En menn voru ekki alveg á sömu blaðsíðunni, við vorum að klikka mikið á okkar varnarprinsippum, þeir voru að komast upp að körfunni auðveldlega á sterku höndina sína og eitthvað slíkt sem við höfum passað vel upp á í síðustu leikjum þar sem vörnin hefur verið bara rosa góð. Við hittum líka alveg hörmulega í þessum leik…5 af 25 í þristum…
Við skulum allaveganna segja að við erum ekkert að fara að horfa á þennan leik aftur…! En hvað er næsti leikur hjá ykkur?
Það er Höttur á heimavelli…
Já, það er kannski númer 1, 2 og 3 að fara ekki í eitthvað vanmat og vera jafnflatir og hérna í fyrsta leikhluta…
Bara alls ekkert vanmat! Hvernig fór á móti Þór Akureyri?
Höttur voru að slátra leiknum síðast er ég vissi…
Jájá, þá hafa þeir unnið 2 leiki í röð, Njarðvík þar á undan. Þeir eru með frábært lið, þeir eru með frábæran Kana, góðan ás og frábæra fimmu og fylla svo vel upp í það. Það virðist vera komin stemmning í hópinn hjá þeim og Viðar að standa sig vel sem þjálfari…
Akkúrat, má jafnvel segja að þetta hjálpi ykkur bara að mótivera ykkur fyrir leikinn gegn þeim…
Ég held að það hafi bara verið mjög gott að ná í sigur í kvöld eftir þennan Tindastólsleik, rosalega mikilvægt fyrir okkur og ég er hrikalega ánægður með það og aðeins lyfta brúninni á mönnum.
Já, kannski aðeins að ýta þeim leik svona lengra…
Já! Við getum þá bara farið að gleyma honum og einbeita okkur að næstu verkefnum! Það er jú spilað svo þétt.
Ég vil sjá skemmtilegri leik frá ykkur næst, annars verð ég brjálaður…
Við höfum sko verið að spila skemmtilegasta boltann í deildinni…
…ég er sammála því…
…höfum spilað mjög hraðan bolta, ekki bara að skjóta þriggja heldur líka inn og út aftur…
Svo langar mig líka að benda á eitt varðandi þennan leik – Styrmir var að dekka Geitina sjálfa, það er margt í gangi í hausnum – þú ert þessi efnilegi ungi á móti Geitinni og þá ætlar maður að sigra heiminn er það ekki…það eru margir fídusar í þessu…
Jájá…og það var kannski ekki alveg að ganga í fyrri hálfleik…
..nei en frábær í seinni! Þá er maður búinn að venjast því að spila gegn Geitinni. Gaman fyrir hann fá að spila á móti Geitinni.
Þetta er mjög skemmtilegur punktur! Og það bera auðvitað allir virðingu fyrir Geitinni…
Já auðvitað, ef það væri ekki spilað svona þétt…hann er í geggjuðu formi og hann verður náttúrulega bara þreyttur, það er bara eðlilegt, hann er nú bara á aldur við okkur!
Stórskemmtilegur punktur frá Lárusi um baráttu Styrmis við Geitina…og vonandi sjáum við meira af sparihlið Þórsara í næstu leikjum!
Viðtal / Kári Viðarsson