Valsmenn fengu heimsókn frá Þorlákshöfn í kvöld er 8. umferð deildarinnar fór fram. Valsarar hafa bókstaflega verið upp og niður það sem af er tímabili en það hefur hins vegar verið böðulsbragur á Þórsurunum undanfarið. Að vísu fleygðu þeir sigrinum frá sér í síðasta leik gegn Stólunum og vilja vafalaust koma sér strax aftur á böðulsbraut í kvöld. Valsmenn töpuðu einnig í síðustu umferð fyrir norðan og ættu, ef liðið heldur takti, að sveiflast upp að þessu sinni og sigra.

Spádómskúlan: Rýna þurfti vel í kúluna að þessu sinni enda þögul, myndræn og dulúðleg rétt eins og það á að vera. Eftir éljagang birtist molten-körfubolti merktum heimamönnum á hægum snúningi og um hann lék súrefnisríkt blóð. Það merkir augljóslega að heimamenn munu hafa súrefni til að vinna þennan leik, naumlega þó, 86-82. (Það fór aðeins um kúluna þegar ljóst var að Bilic var fjarri  góðu gamni líkt og Kristó hjá Val..en bannað að breyta!)

Byrjunarlið:

Valur: Jón, Pavel, Finnur, Cardoso, Illugi

Þór Þ.: Drungilas, Lawson, Larry, Styrmir, Ragnar

Gangur leiksins

Eftir skakkasta uppkast í manna minnum og endurræsingu leiksins hófust leikar og Larry opnaði leikinn með flottum þristi. Það voru þó Kristó og Bilic-lausir heimamenn sem voru miklu ákveðnari á öllum sviðum leiksins og komust fljótt í forystu. Cardoso sá um stigaskorið til að byrja með fyrir Val en fleiri fylgdu fordæmi hans er á leið, m.a. Geitin með þristi og setti stöðuna í 15-10 um miðjan leikhlutann. Valsarar leiddu mest 23-14 en 23-16 að leikhlutanum loknum. Gestirnir voru hálfsofandi allan leikhlutann og áttu eiginlega ekki skilið að vera bara 7 stigum undir.

Larry byrjaði vel í öðrum leikhluta og setti 6 snögg stig í röð fyrir sína menn. Valsmenn héldu samt áfram að gera vel, börðust af krafti og minna þekktir leikmenn liðsins skiluðu góðu framlagi. Snjólfur Björnsson kom t.a.m. inn á um miðjan leikhlutann og skilaði góðri 3ja stiga sókn. Jafnt var á flestum tölum allan leikhlutann en heimamenn áttu góða lokamínútu þar sem Svalason skoraði eftir frábært ,,hreyfikerfi“ Valsmanna, stálu svo boltanum hinum megin og Cardoso setti stöðuna í 42-39 fyrir hálfleikinn. Flottur hálfleikur hjá vængbrotnu liði Vals en það sama verður ekki sagt um gestina. Þeir höfðu t.d. tapað 12 boltum í fyrri hálfleik og virtust ætla að reyna að vinna þennan leik liggjandi.

Fyrstu mínútur síðari hálfleiks voru svipaðar og fyrr í leiknum, gestirnir voru eins og draugar en heimamenn baráttuglaðir. Illugi átti fína spretti fyrir Val og setti þrist í horninu og skömmu síðar leiddu heimamenn 49-41. Kúlan virtist hafa sýnt vitræna táknmynd á þessum tímapunkti en það átti eftir að breytast fljótlega. Það munaði kannski einna mest um það að leikmenn Þórs sem ekki voru inn á vellinum stóðu upp, fóru að taka virkan þátt í varnarleik sinna manna og það örlaði á lífi og stemmningu hjá gestunum. Sóknarlega byrjaði líka eitthvað örlítið að ganga hjá Þór, Drungilas setti nokkur góð stig af póstinum og Raggi Braga setti þrist sem var ansi sjaldgæf sjón í kvöld, hjá báðum liðum! Þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja höfðu heimamenn ekki enn skorað og staðan var orðin 49-54. Leikar stóðu svo 52-60 eftir þriðja og flestum ljóst í hvað stefndi.

Vörnin hjá Þór var áfram góð í fjórða leikhluta og má segja að hún hafi dregið stigin tvö í hús. Liðin hittu nákvæmlega ekki neitt en þó var ástandið öllu skárra hjá gestunum og forskotið seig löturhægt upp í 10-12 stig. Þegar 5 mínútur voru eftir var staðan 57-71 og Finnur kallaði Jón og Pavel af velli. Það kom svolítið á óvart en sennilega bara skynsamlegt að mati undirritaðs. Handklæðinu hafði semsagt verið kastað inn á völlinn, gestirnir áttu næstu 5 stig og úrslitin ráðin. Lokatölur urðu 67-86 í afar rislitlum sigri Þórs frá Þorlákshöfn.

Menn leiksins

Undarlegasta valið á mönnum leiksins kemur hér! Þeir sem voru á bekknum hjá Þór og börðust við það að skapa smá stemmingu og baráttu varnarlega í síðari hálfleik eru menn leiksins! Þar snerist leikurinn og fullmannað lið Þórs seig að lokum framúr Valsmönnum.

Fyrir tölfræðiþyrsta var Larry Thomas stigahæstur með 22 stig og Drungilas var með 18 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Styrmir fann sig ekki í fyrri hálfleik frekar en flestir en endaði með flotta tölfræði, 16 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.

Kjarninn

Valsmenn verða ekki dæmdir af þessum leik. Finnur Freyr er alvöru maður og það er djúpt á vælinu hjá honum en jafnvel hann viðurkenndi í viðtali eftir leik að skörðin í Valsliðinu hafi verið ansi djúp í kvöld. Það breytir því ekki að liðið þarf nægilega mörg stig til að komast í úrslitakeppnina en það hlýtur að vera algert lágmarksmarkmið hjá liðinu.

Við Lárus ætlum ekkert að horfa á þennan leik aftur – aldrei! Liðið spilaði illa í þessum leik en það vildi svo vel til að andstæðingurinn var vængbrotinn og stigin fóru með gestunum úr húsi. Frammistaðan þarf heldur ekkert að gefa til kynna að liðið spili illa í næsta leik og Lárus lofaði að bjóða undirrituðum ekki upp á svona hörmung í næstu leikjum! Hann lofaði því líka að vanmeta ekki Hött sem er næsti andstæðingur liðsins.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun / Kári Viðarsson