Hattarmenn gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Njarðvíkinga í æsispennandi leik á Egilsstöðum í kvöld. Gestirnir sem mættu án erlends leikmanns voru heldur seinir í gang og heimamenn skoruðu fyrstu átta stig leiksins. Þá lifnuðu gestirnir við og fyrsti leikhluti var stál í stál en þó höfðu heimamenn frumkvæðið og sigruðu leikhlutann 27-21. Í öðrum leikhluta fóru Njarðvíkingar að pressa sem reyndist Hattarmönnum erfitt. Þrátt fyrir góða baráttu náðu gestirnir að skríða fram úr og leiddu með einu stigi í hálfleik 42-43.
Í þriðja leikhluta mættu gríðarlega einbeittir Hattarmenn til leiks og með Tobin í fararbroddi unnu þeir leikhlutann 22-11 og staðan þannig 64-54 fyrir síðasta leikhlutann. Þá bar hæst skrímsla alley-oop troðsla Tobins yfir Loga Gunn eftir sendingu frá Steina sleggju undir lok leikhlutans. Í síðasta leikhlutanum var allt undir og gestirnir pressuðu stíft og náðu þannig fljótlega að minnka forskotið með Loga Gunn í fararbroddi, þar sem hann setti á köflum ævintýralega þrista eins og honum einum er lagið og hugsuðu heimamenn í stúkunni honum þegjandi þörfina á tímabili þegar það leit út fyrir að hann ætlaði að snúa leiknum upp á sitt einsdæmi. En það er ljós handan gangnanna og Jökuldælingurinn og gæðadrengurinn Sigmar Hákonarson setti risastóran þrist á ögurstundu þegar skammt var eftir og Tobin hélt áfram sem leiðtogi liðsins og setti stór skot auk þess að nýta vítaskot sín í lok leiksins og þannig vann Höttur sigur 86-79.
Gríðarleg batamerki voru á leik heimamanna og greinilegt að menn fundu áður glatað sjálfstraust og voru allir leikmenn að leggja sitt af mörkum til liðsins. Þó stóð Tobin uppúr og setti lítil 40 stig, stal 6 boltum og tók 6 fráköst. Mirko var einnig gríðarlega sterkur og átti teiginn með 11 stig og 17 fráköst.
Hjá gestunum var Logi stigahæstur með 17 stig og Maciej með 16. Haukur Helgi náði sér ekki á strik í seinni hálfleik og endaði með 11 stig.
Viðar Örn þjálfari Hattar var að vonum sáttur með leik sinna manna, þá sérstaklega varnarlega. Hann var einnig ánægður með liðsframlagið, þar sem fleiri lögðu til en oft áður. Hann þakkar líka stuðningsmönnum en um 300 manns mættu á leikinn og var hörku stemming í húsinu.
Umfjöllun/ Frosti Sigurðarson