Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt þar sem Lakers lenti 3-0 undir gegn Dallas Mavericks og Chicago Bulls tók 2-1 forystu gegn Atlanta Hawks. Fátt ef nokkuð bendir til annars en að Mavericks sópi Lakers út í sumarið og með hreinum ólíkindum hvernig meistarar síðustu tveggja ára eru að liðast í sundur um þessar mundir.
Dallas Mavericks 98 – 92 LA Lakers
Lakers 0-3 Dallas
Dirk Nowitzki var beittur í fyrsta heimaleik Dallas í undanúrslitunum. Þjóðverjinn öflugi setti niður 32 stig og tók 9 fráköst og setti niður 4 af 5 þristum sínum í leiknum. Jason Terry kom sem fyrr traustur af bekknum og setti niður 23 stig í nótt. Andrew Bynum var atkvæðamestur í liði Lakers með 21 stig og 10 fráköst og Kobe Bryant bætti við 17 stigum og 6 stoðsendingum.
Atlanta Hawks 82 – 99 Chicago Bulls
Chicago 2-1 Atlanta
Jeff Teague var stigahæstur í liði Atlanta með 21 stig og Josh Smith bætti við 17 stigum og 13 fráköstum en hjá Bulls var Derrick Rose í fantaformi með 44 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst! Þetta var persónulegt met hjá Rose sem aldrei áður hefur skorað 44 stig í NBA deildinni.
Mynd/ Rose fór á kostum í sigri Bulls í nótt