Valskonur hafa fengið liðsstyrk í Iceland Express deild kvenna en Lacey Simpson er komin til liðs við félagið og verður með Valskonum gegn Snæfell í kvöld. Ágúst Sigurður Björgvinsson þjálfari Valskvenna staðfesti þetta í samtali við Karfan.is í dag.
,,Þetta er fjöhæfur framherji,“ sagði Ágúst sem eins og gefur að skilja hefur ekki haft mikinn tíma til að kynnast leikmanninum sem lék í Tyrklandi á síðasta tímabili.
Simpson útskrifaðist frá Illinois háskólanum í Bandaríkjunum og á að baki einn WNBA leik með San Antonio Sparks en það var sumarið 2010 og þá lék hún einnig nokkra æfingaleiki með liðinu.
Simpson gengur í raðir Valskvenna á meðan félagið er í 6. sæti deildarinnar með 10 stig og verður fróðlegt að sjá hvort leikmaðurinn nái að hjálpa liðinu að klifra ofar í töfluna.
Mynd/ Simpson í leik með Illinois skólanum.