Þá er komið að Kristjáni Jónssyni blaðamanni hjá Morgunblaðinu að rýna í Poweradebikarúrslitin sem fram fara í Laugardalshöllinni í dag. Eins og sönnum herramönnum sæmir var kvennaleikur KR og Keflavíkur fyrst tekinn fyrir.
Kvennaleikur KR og Keflavíkur kl. 13:00:
1. Hvað sérð þú í kristallskúlunni fyrir þennan leik?
Kristalskúlu á ég ekki til í dúfnakofanum mínum. Hins vegar finnst mér allar forsendur vera fyrir því að þetta verði dramatík. Vafalaust jafn leikur og hugsanlega frekar harður.
2. KR hefur ekki enn unnið Keflavík á þessari leiktíð, af hverju ætti það að gerast núna í bikarúrslitum?
Sagan kennir okkur einfaldlega að árangur í deildakeppni skiptir litlu sem engu máli þegar komið er í bikarúrslitaleik. Þú þarft að hámarka þína getu í 40 mínútur og þá ertu í góðum málum. Vandamálið við það er hins vegar að þú ert að glíma við allt annað spennustig og allt aðrar aðstæður en vanalega.
3. Þetta eru sigursælustu kvennalið þjóðarinnar, heldur þú að rík hefð þessara sigursælu liða hjálpi eitthvað til eða gæti orðið til vansa á sjálfum leikdegi?
Ég sé ekki að slíkt geti verið til vansa. Ég tel einmitt að sagan og hefðin geri þennan leik enn stærri og meira spennandi en venjulegan bikarúrslitaleik. Það skemmir ekki fyrir að inni á vellinum verða margir leikmenn sem kunna að vinna titla.
4. Hvernig myndir þú bera saman þjálfara liðanna?
Ég er ekki viss um að ég þekki þá nægilega mikið til að bera þá saman. Hins vegar eru þeir báðir í nokkuð sérstakri stöðu. Jonni er að berjast við að brjóta ísinn í Höllinni eftir þrjú töp í úrslitaleikjum. Hrafn er hins vegar í fyrsta skipti í bikarúrslitum sem þjálfari en þarf að einbeita sér að tveimur leikjum. Minn gamli íþróttakennari, Baldur Jónasar spilar því sjálfsagt nokkra rullu hjá KR í þessum leik.
5. Hvaða leikmenn býst þú við að skíni skært í Höllinni?
The usual suspects eins og Birna Valgarðs og Kara en það væri náttúrlega gaman að sjá einhvern minni spámann koma með stórt framlag eins og gerðist í fyrra.
Karlaleikur KR og Girndavíkur
1. KR hefur ekki unnið bikarinn í 20 ár, er pressan of mikil hjá þeim?
Nei ég held að hún sé ekki of mikil en hún gæti klárlega haft áhrif. Sérstaklega ef illa gengur framan af leik.
2. Grindavík tapar fjórum deildarleikjum áður en þeir detta inn í bikarúrslit, er boðlegt að mæta með svoleiðis marblett á sálinni í bikarúrslit?
Já, annað eins hefur gerst. Því er þó ekki að neita að þeir eru ekki í neinni óskastöðu. Ekki bara út af tapleikjunum fjórum heldur vegna þess að liðið er að ganga í gegnum stórar breytingar á leikmannahópnum. Á móti kemur að mörgum hefur þótt gott í gegnum tíðina að fara inn í úrslitaleiki sem minnimáttar. Sjálfsagt finnst Grindvíkingum það ágætt.
3. Engu liði hefur tekist að leggja KR að velli á þessu ári, hvað þarf til að sjá fram á Grindavíkursigur?
Grindavíkurliðið er það vel mannað að þeir geta unnið KR ef þeir finna taktinn. Ég kann ekki nægilega mikið fyrir mér í sportinu til að skrifa sigurformúlu gegn KR en ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir að bakverðirnir geta ekki fengið að leika lausum hala, Pavel, Brynjar og Walker.
4. Hvernig telur þú að Helgi Jónas og Hrafn leggi upp leiki sinna liða?
Ég ímynda mér að þeir leggi báðir ofuráherslu á varnarleikinn. Hrafn hefur unnið mikið í honum að undanförnu og eyddi jólafríinu í það enda hefur það skilað góðum árangri. Að sama skapi áttu Grindvíkingar varnarleik sínum gott gengi framan af leiktíðinni að þakka.
5. Hverjir munu láta að sér kveða í leiknum?
The usual suspects. Ég er frekar spenntur að sjá Pavel því hann hefur ekki spilað svona leik áður. Eins finnst mér alltaf forvitnilegt þegar haglabyssur eins og Paxel og Brynjar spila mikilvæga leiki. Ef þeir detta í stuð þá hefur það svo mikið að segja.
Mynd/ Jón Björn: Kristján fékk smjörþefinn af bikarmeistaratitlinum á blaðamannafundi KKÍ fyrr í þessari viku.