spot_img
HomeFréttirKR tók 3. sætið: Jöfn úrslitakeppni framundan segir Helga

KR tók 3. sætið: Jöfn úrslitakeppni framundan segir Helga

21:19
{mosimage}

(Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hóf leikinn á bekknum hjá KR en reyndist þrautgóð á raunastund í kvöld)

Subwaybikarmeistarar KR tryggðu sér 3. sætið í A-riðli Iceland Express deildar kvenna í kvöld með 62-48 sigri á Hamri. Þar með er ljóst að KR mætir Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og Hamar leikur gegn Val. Eins og lokatölurnar gefa til kynna var lítið skorað og skotnýting beggja liða var afleit en sterk vörn KR reið baggamuninn í kvöld. Framan af leik var boðið upp á vægast sagt dapran körfubolta á báða bóga en til allrar lukku rættist aðeins úr leiknum undir lokin en ljóst var að bæði lið voru fegin að honum væri lokið og að nú gætu þau einbeitt sér að úrslitakeppninni. Helga Einarsdóttir var með 11 stig og 9 fráköst í liði KR og átti ljómandi góðan dag, Karfan.is náði tali af Helgu í leikslok.

,,Mér líst mjög vel á að fara að mæta Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar því það er langt síðan að við spiluðum við þær og þær munu eflaust gíra sig vel upp gegn okkur svo það er hörkurimma framundan,“ sagði Helga og viðurkenndi að leikur kvöldsins hefði verið fjarri því fallegur. ,,Lágt stigaskor og þetta var ekki fallegt en það var mikilvægt að vinna bæði upp á sjálfstraustið og leik liðsins,“ sagði Helga en hver er hennar tilfinning fyrir úrslitakeppninni?

,,Ég tel að mjög jöfn úrslitakeppni sé framundan og liðin í úrslitakeppninni eru ekkert að slaka á og það munum við ekki heldur gera. Við ætlum ekkert að gefast upp og erum komnar vel niður á jörðina eftir bikarúrslitin,“ sagði Helga sem aukareitis við 11 stig og 9 fráköst var með 2 stolna bolta, 2 varin skot og 3 stoðsendingar.

{mosimage}
(Helga Einarsdóttir sækir að Juliu Demirer miðherja Hamars)

Helga Einarsdóttir opnaði leikinn og kom KR í 2-0 en seint verður sagt að fyrsti leikhluti hafi verið stigum prýddur. Sigrún Ámundadóttir sem lék ekki með KR gegn Keflavík í síðustu umferð sökum meiðsla byrjaði leikinn á bekknum en kom fljótt inn í liðið sem og Gréta Guðbrandsdóttir sem var lífleg. KR byrjuðu betur og komust í 8-5 og þá tóku gestirnir úr Hveragerði leikhlé sem skilaði tilætluðum árangri. Hamar gerði næstu fjögur stigin eftir leikhlé og leiddu svo 10-13 að loknum fyrsta leikhluta. Heiðrún Kristmundsdóttir kom full áköf af bekknum hjá KR og nældi sér strax í tvær villur í fyrsta leikhluta.

Vörn beggja liða var áfram þétt í öðrum leikhluta og sóknirnar að sama skapi dræmar. Hamarskonur komust í 14-21 og eitthvað hafði Jóhannesi Árnasyni hitnað í hamsi og átti í orðaskaki við annan dómara leiksins og hlaut fyrir vikið tæknivillu. Íris Ásgeirsdóttir gerði skömmu síðar góðan þrist fyrir Hamar og breytti stöðunni í 18-26 en leikar stóðu 20-32 eftir fínan endasprett gestanna.

Helga Einarsdóttir var stigahæst í liði KR í hálfleik með 6 stig og 5 fráköst en hjá Hamri var LaKiste Barkus með 13 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Þess má geta að skotnýting KR var afleit í fyrri hálfleik, liðið brenndi af öllum 11 þriggja stiga skotum sínum og hitti aðeins úr 9 af 36 teigskotum sínum, þá eru ótalin vítin en KR hitti aðeins úr 2 af 7 vítaskotum!

Subwaybikarmeistarar KR bættu enn í vörnina hjá sér í síðari hálfleik á meðan Hamarskonur vissu vart sitt rjúkandi ráð. Í raun var vörn beggja liða fín en sóknarleikurinn afleitur og þá sérstaklega hjá Hamri. KR minnkaði muninn í 27-32 og höfðu þá gert 7 fyrstu stig síðari hálfleiks á tæpum sjö mínútum. Julia Demirer kom Hamri loks á blað með körfu eftir sóknarfrákast þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Hildur Sigurðardóttir minnkaði muninn fyrir KR í 33-34 og Sigrúnu Ámundadóttur tókst svo að jafna leikinn í 36-36 og þannig stóðu leikar að loknum þriðja leikhluta. Leikhlutinn fór 16-4 fyrir KR og skotnýtingin verulega að snúast í höndunum á Hamri sem voru ískaldar.

{mosimage}
(Margrét Kara Sturludóttir)

Leikar stóðu aftur jafnir 40-40 í fjórða leikhluta en þá tók KR á rás og komst í 49-40. Hamarskonur fóru ógætilega með boltann gegn ákveðinni vörn KR-inga og ef gestirnir voru ekki hreinlega að rétta KR boltann þá var honum grýtt útaf líkt og hann væri skíðlogandi, slíkur var æðibunugangur Hamarskvenna. Gestirnir voru þó ekki af baki dottnir og náðu að minnka muninn í 49-45 en nær komust þær ekki og KR sigldi í átt að öruggum sigri. Sigrún Ámundadóttir setti þrist og breytti stöðunni í 55-45 þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka og Hamarskonur áttu ekki afturkvæmt eftir það. Lokatölur leiksins urðu svo 62-48 fyrir KR í leik sem seint verður sendur í fegurðarsamkeppni.

Fanney Lind Guðmundsdóttir leikmaður Hamars segir að Hvergerðingar séu hvergi af baki dottnir og geti vel slegið Valskonur út úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar. ,,Við höfum unnið Val áður en við verðum að rífa okkur upp úr þessum leik gegn KR í kvöld en við getum miklu betur en þetta,“ sagði Fanney sem á von á því að KR klári sína rimmu gegn Grindavík. Fanney gerði 6 stig í liði Hamars og tók 4 fráköst en atkvæðamest í liði Hamars var LaKiste Barkus með 15 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en hún gerði aðeins 2 stig í síðari hálfleik. Hjá KR var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 13 stig og 3 fráköst og Margrét Kara Sturludóttir gerði 12 stig og tók 6 fráköst hjá KR.

Tölfræði leiksins:

http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMSZvX2xlYWc9MSZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD00NjI=

[email protected]

{mosimage}

(Fanney Lind Guðmundsdóttir)

{mosimage}
(LaKiste Barkus)

Fréttir
- Auglýsing -