12:31
{mosimage}
(Þessir tveir þekkja það að handleika Íslandsmeistaratitilinn)
Þriðja úrslitaviðureign KR og Grindavíkur í Iceland Express deild karla fer fram annað kvöld kl. 19:15 í DHL-Höllinni í Vesturbænum. Staðan í einvíginu er jöfn 1-1 en þrjá sigra þarf til þess að verða Íslandsmeistari. Karfan.is leit aðeins yfir afrekaskrá félaganna en þessi tvö lið hafa einu sinni áður mæst í úrslitum úrvalsdeildar þar sem KR varð Íslandsmeistari eftir 3-1 sigur í rimmunni en það var árið 2000.
Afrekaskrá KR og Grindavíkur í íslenska karlaboltanum er nokkuð frábrugðin. Grindvíkingar hafa einu sinni áður orðið Íslandsmeistarar en KR hefur 10 sinnum orðið Íslandsmeistari. Grindvíkingar urðu fyrst Íslandsmeistarar leiktíðina 1995-1996. Öllu skemmra er síðan KR lyfti þeim stóra en það var leiktíðina 2006-2007 og þá var einmitt Benedikt Guðmundsson við stjórnartaumana. Annar Friðrik var við stjórn í Grindavík þegar þeir urðu meistarar en það var Friðrik Ingi Rúnarsson en núverandi þjálfari Grindavíkur er Friðrik Pétur Ragnarsson.
Síðan úrslitakeppnin í úrvalsdeild karla var sett á laggirnar árið 1984 hefur KR 3 sinnum orðið Íslandsmeistari og Grindavík einu sinni. Síðan úrslitakeppnin hóf göngu sína hefur KR alltaf orðið Íslandsmeistari eftir sigur á Suðurnesjaliði. Fyrst árið 1990 þegar þeir skelltu Keflavík 3-0, aftur árið 2000 þegar þeir lögðu einmitt Grindavík 3-1 en þá var Ingi Þór Steinþórsson þjálfari KR en er í dag aðstoðarþjálfari. Þriðji titillinn kom í hús árið 2007 eftir 3-1 sigri á Njarðvíkingum sem unnu fyrsta leikinn en KR vann næstu þrjá.
Grindvíkingar léku til úrslita gegn Keflavík árið 1996 og unnu einvígið 4-2 en þá þurfti að vinna fjóra leiki til að verða Íslandsmeistari. Því var svo breytt aftur árið eftir og þá þurfti aðeins að vinna þrjá leiki en þá leiktíðina snérist taflið í höndunum á Grindavík sem lá 3-0 gegn Keflvíkingum.
Ef KR verður Íslandsmeistari í ár verður það ellefti Íslandsmeistaratitill félagsins en aðeins annar hjá Grindvíkingum ef þeir vinna. Gulir úr Röstinni eiga heiðurinn að flestum silfurverðlaunum eftir úrslitakeppni eða alls fimm talsins, liðið hafnaði í 2. sæti Íslandsmótsins árin 1994, 1995, 1997, 2000 og 2003. KR-ingar eiga hinsvegar aðeins tvö silfur á bakinu eftir að úrslitakeppnin kom á fót en það voru árin 1989 og 1998.
Ef Grindvíkingar ætla sér Íslandsmeistaratitilinn verða þeir að ná sér í sigur í DHL-Höllinni þar sem KR á heimaleikjaréttinn. Engu liði hefur tekist að leggja KR að velli í DHL-Höllinni þessa leiktíðina en síðasti sigur í DHL-Höllinni kom fimmtudaginn 3. apríl þegar ÍR lagði KR í oddaleik liðanna í 8-liða úrslitum 74-93. Þá hafa Grindvíkingar aðeins tapað einum heimaleik á þessari leiktíð en það var gegn Snæfell í þriðja leik liðanna sem Hólmarar unnu eftir tvær framlengingar.
Þess má geta að þeir Jón Arnór Stefánsson, Jakob Örn Sigurðarson og Ólafur M. Ægisson voru allir í Íslandsmeistaraliði KR sem vann Grindavík árið 2000 og þá voru Guðlaugur Eyjólfsson og Brenton Birmingham einnig liðsmenn Grindavíkur.
KR-Grindavík
Kl. 19:15 í DHL-Höllinni
Bein útsending hjá Stöð 2 Sport og KR TV
Mynd: [email protected]