KR lagði ÍR í kvöld í Hellinum í fyrstu deild kvenna, 70-73. Eftir leikinn er ÍR enn í efsta sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að KR er í 3.-4. sætinu með 12 stig líkt og Þór Akureyri.
Fyrir leik
Þjálfarar liðanna Hörður Unnsteinsson hjá KR og Kristjana Jónsdóttir ÍR höfðu eldað grátt silfur saman í hlaðvörpum og á samfélagsmiðlum í vetur, þar sem að þjálfari KR hafði meðal annars látið þau orð falla að lið Kristjönu væru tuddar, en hann uppskar viðurnefnið Þrotið í Vesturbænum að launum.
Gengi liðanna í deildinni þó nokkuð misjafnt. Þar sem að ÍR hafði siglt frekar lygnan sjó, unnið alla átta leiki sína og eru í efsta sæti deildarinna. KR hinsvegar unnið fimm leiki og tapað þremur í 3.-4. sæti deildarinnar.
Gangur leiks
Danielle Reinwald fór mikinn fyrir heimakonur í upphafi leiks, setur 8 stig og tekur 9 fráköst í fyrsta fjórðungnum. Leikurinn er þó í jafnvægi í fyrsta leikhlutanum, staðan 17-17 að honum loknum. KR nær svo að vera skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum, ná mest 8 stiga forystu í fjórðungnum, en staðan var 34-42 þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.
Erlendir leikmenn beggja liða voru þeir atkvæðamestu í fyrri hálfleiknum. Danielle með 12 stig og 14 fráköst fyrir ÍR á meðan að Angel Robinson skilaði 18 stigum og 5 fráköstum.
Heimakonur gera sig líklegar til að vinna niður forskot KR í upphafi seinni hálfleiksins. Skotin þeirra virðast þó ekki vilja detta undir lok fjórðungsins og lætur KR kné fylgja kviði, auka forystu sína í 12 stig fyrir lok þriðja leikhlutans, 44-56. Hægt og rólega ná heimakonur að vinna niður mun gestanna í fjórða leikhlutanum og eru aðeins 3 stigum undir þegar 3 mínútur eru eftir. Næst komast þær stigi frá þeim á lokamínútunum, en aldrei yfir. Undir lokin gera KR vel í að halda út og vinna að lokum með 3 stigum eftir að flautuskot ÍR til að jafna leikinn syngur úr hringnum, 70-73.
Kjarninn
Þrátt fyrir að hafa unnið alla átta leiki sína það sem af er vetri þá hefur ÍR oftar en ekki verið í nokkuð jöfnum leikjum og þá sérstaklega síðasta rúma mánuðinn. Hlaut að koma að þessu tapi, alls ekki endirinn á heiminum fyrir þær samt, ennþá í efsta sætinu og áfram liðið til að vinna. Voru að skjóta boltanum afleitlega í leik kvöldsins. Mörg opin skot, bara voru ekki að detta.
KR-ingar voru hinsvegar nokkuð öruggar bara. Fengu frábæran leik frá erlendum leikmanni sínum Angel Robinson og svo kannski það sem ríður baggamuninn er það framlag sem þær fá frá sterkum íslenskum kjarna sínum, Fanney, Ragnhildi Örnu, Perlu, Huldu Ósk og Leu.
Atkvæðamestar
Angel Robinson var atkvæðamest fyrir KR í leiknum með 32 stig, 13 fráköst og Fanney Ragnarsdóttir bætti við 11 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum.
Fyrir heimakonur var Danielle Reinwald atkvæðamest með tröllatvennu, 22 stig og 25 fráköst. Henni næst kom Irena Sól Jónsdóttir með 14 stig.
Hvað svo?
Bæði eiga liðin leik næst þann 18. desember. KR gegn Þór Akureyri í Vesturbænum á meðan að ÍR heimsækir Snæfell í Stykkishólm.
Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)