Keflavík hafði betur gegn Grindavík í kvöld í fjórða leik undanúrslita einvígis liðanna í Subway deild karla, 89-82. Með sigrinum tryggði Keflavík sér oddaleik í einvíginu 2-2, en hann mun fara fram komandi þriðjudag 14. maí.
Fyrir leik
Leikir liðanna í einvíginu höfðu allir fyrir leik kvöldsins unnist á heimavelli. Grindavík unnið fyrsta og þriðja í Smáranum á meðan að annan leikinn tók Keflavík á Sunnubrautinni.
Gangur leiks
Það voru heimamenn í Keflavík sem hófu leik kvöldsins betur. Skoruðu fyrstu 12 stig leiksins. Grindvíkingar svara því áhlaupi nokkuð vel eftir leikhlé, en ná lítið að vinna á forystu Keflvíkinga í fyrsta fjórðungnum, sem endar 27-16. Þeir gera svo áfram vel að halda Grindvíkingum í hæfilegri fjarlægð í öðrum leikhlutanum. Næst kemst Grindavík einhverjum 7 stigum frá þeim áður en Keflavík gefur aftur í og eru þeir 12 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 53-41. Augljóst var í þessum fyrri hálfleik að dómarar leiksins ætluðu að hafa góð tök á leiknum, tókst líka nokkuð vel til hjá þeim, en á fyrstu fimmtán mínútum leiksins höfðu verið dæmdar þrjár óíþróttamannslegar villur þar sem í öll skiptin var farið í skjáinn.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Sigurður Pétursson með 16 stig á meðan að DeAndre Kane var kominn með 17 stig fyrir Grindavík.
Keflvíkingar láta kné fylgja kviði í byrjun seinni hálfleiksins og eru mest 21 stigi yfir í þriðja leikhlutanum. Þeira fara þó nokkuð illa að ráði sínu undir lok fjórðungsins, missa Halldór Garðar út úr húsi fyrir óþarfa tuð og forskot sitt niður í 14 stig fyrir lokaleikhlutann, 69-55.
Grindvíkingar mæta heldur betur klárir inn í fjórða leikhlutann. Dedrick Basile leikur á alls oddi fyrir þá sóknarlega, setur niður þrist eftir þrist og ná þeir að koma forskoti heimamanna niður í 3 stig á fyrstu þremur mínútum fjórðungsins, 71-68. Keflvíkingar svara þessu áhlaupi Grindvíkinga á gífurlega yfirvegaðan hátt. Ná aðeins að róa leik sinna manna sóknarlega og þétta raðir varnarlega. Ná á lokamínútunum að vera 5-10 stigum á undan og vinna leikinn að lokum með 7 stigum, 89-82.
Atkvæðamestir
Sigurður Pétursson var frábær fyrir Keflavík í kvöld. Lék tæpar 33 mínútur og skilaði á þeim 24 stigum, 7 fráköstum, 3 stoðsendingum, 2 stolnum boltum og 2 vörðum skotum. Honum næstur var Jaka Brodnik með 23 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.
Atkvæðamestir fyrir Grindavík í leiknum voru DeAndre Kane með 21 stig, 10 fráköst og Julio De Assis með 17 stig og 8 fráköst.
Kjarninn
Keflvíkingar voru með bakið upp við vegg fyrir leik kvöldsins og náðu að nýta sér það. Mættu gífurlega einbeittir til leiks og voru lengst af með tögl og haldir í leiknum. Grindvíkingar gerðu vel að skjóta sig inn í leikinn í lokaleikhlutanum, en að sama skapi var svar heimamanna við því eins nálægt því að vera fullkomið og það gat verið. Heilt yfir virkilega sterk 40 mínútna frammistaða Keflvíkinga sem eru til alls líklegir í oddaleiknum á þriðjudaginn.
Myndasafn (væntanlegt)
Viðtöl væntanleg
Viðtöl birt upphaflega á vef Víkurfrétta