spot_img
HomeFréttirKeflavíkursigur í Hveragerði

Keflavíkursigur í Hveragerði

 
Keflavíkurstúlkur gerðu góða ferð austur fyrir fjall í kvöld og náðu sér í tvö dýrmæt stig í baráttunni um annað sætið í Iceland Express deildinni.
Jafnfræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins, en í stöðunni 12-9 tóku Keflavík 9-0 áhlaup , en heimastúlkur náðu að laga stöðuna í 20-24 fyrir lok fjórðungsins. Flest stig Hamars í fyrsta leikhluta fóru í gegnum teiginn þar sem þær spiluðu mikið upp á high-post, á meðan sóknarleikur gestanna var fjölbreyttari.
 
Byrjun annars leikhluta var í stíl við fyrsta leikhlutann þar sem bæði lið keyrðu upp hraðann en þegar tvær mínútur voru liðnar af 2. fjórðung var staðan 22-30. Heimastúlkur girtu sig þá í brók og löguðu stöðuna í 31-32 og þá tók Jón Halldór leikhlé og messaði duglega yfir sínum stelpum og greinilegt að Kristi Smith tók það til sín því hún setti tvo þrista í röð og staðan því 31-38 og rúmlega þrjár og hálf mínúta eftir af fyrri hálfleik þegar Ágúst Björgvinsson tók leikhlé til að reyna að kæfa þetta áhlaup í fæðingu. Heimastúlkur skerptu á varnarleiknum og náðu að jafna 41-41 þegar rúm mínúta var eftir hálfleiknum en Birna skoraði úr tveimur vítum skömmu síðar staðan 41-43 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
 
Keflavíkingar mættu dýrvitlausar til leiks í seinni hálfleikinn á meðan heimastúlkur voru hálf hauslausar sem leiddi af sér að gestirnir skoruðu 10 fyrstu stigin í síðari hálfleik þar sem Birna negldi niður tvo þrista úr galopnum skotum, á meðan ekkert gekk í sóknarleik Hamars þar sem hvert skotið á fætur öðru geigaði, þrátt fyrir að hafa náð þremur sóknarfráköstum í sömu sókninni. Staðan orðin 41-53 og aðeins tvær mínútur búnar af síðari hálfleiknum. Gestirnir héldu áfram að spila hörku svæðisvörn og fjölbreytnin var til staðar í sóknarleiknum á meðan Kristrún og Julia Demirer héldu Hamri á floti með því að skora saman 11 stig í 3. fjórðung á móti 21 stigi Keflvíkinga, þannig að staðan var 52-64 fyrir síðasta leikhlutann og greinilegt að eitthvað þyrfti að gerast ef Keflvíkingar ættu ekki að landa öruggum sigri.
 
Fanney byrjaði leikhlutann á að setja niður lay-up og minnka muninn í 64-54 og þá tók Julia við skoraði tvær sóknir í röð og fékk vítaskot að auki í bæði skiptið, og nýtti það í annað skiptið. Munurinn orðinn 59-64 og Jón Halldór tók leikhlé. Áfram héldu heimastúlkur að saxa á forskot gestanna og náðu að minnka muninn í 1 stig 65-66 og tæpar fimm mínútur eftir, þannig að allt gæti gerst. Þá skoruðu gestirnir næstu fimm stigin og Ágúst óhress með leik sinna stúlkna eftir tvær mínútur án stiga og tók því leikhlé þegar 2:25 voru eftir af leiknum og staðan 65-71. Kristrún nældi í kjölfarið í tvö vítaskot og setti þau bæði og munurinn 4 stig 67-71 þegar 2 mínútur voru eftir en þá fraus sóknarleikur beggja liða. Kristrún setti næstu tvö stig í leikinn úr vítum þegar 25 sekúndur voru eftir og staðan 69-71. Heimastúlkur pressuðu þá allan völlinn, en náðu ekki að stela boltanum og neyddust til að brjóta á Kristi Smith þegar 16 sekúndur voru eftir. Kristi var öryggið uppmálað og setti bæði vítin niður.
 
Ágúst tók leikhlé og stillti upp í kerfi sem endaði á þriggjastiga skoti frá Koren sem missti marks og Rannveig Randversdóttir náði frákastinu. Julia Demirer braut á henni þegar 6,1 sekúnda var eftir og munurinn 4 stig 69-73. Rannveig setti fyrra vítið og gulltryggði gestunum sigu 69-74 sem urðu lokatölur leiksins.
 
Hjá Hamri var Kristrún Sigurjónsdóttir stigahæst með 23 stig og 4 stoðsendingar og Julia skoraði 17 stig og reif niður 20 fráköst, þar af 10 sóknarfráköst. Kristrún og Julia skoruðu 26 af 28 stigum Hamars í seinni hálfleik. Koren Schram skoraði 9 stig og hitti aðeins úr 1 af 11 þriggjastiga skotum sínum í leiknum. Sigrún Ámundadóttir skoraði 7 stig og tók 12 fráköst.
 
Hjá gestunum var Kristi Smith atkvæðamest með 22 stig og 8 stoðsendingar,Birna var með 19 stig og 9 fráköst og Bryndís fylgdi henni fast á eftir með 18 stig og 9 fráköst.
 
 
Texti og mynd: Sævar Logi
Fréttir
- Auglýsing -