spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík vann sinn sjöunda leik í röð - Lögðu Fjölni örugglega í...

Keflavík vann sinn sjöunda leik í röð – Lögðu Fjölni örugglega í Dalhúsum

Keflavík lagði Fjölni í kvöld í 7. umferð Subway deildar kvenna, 72-91. Eftir leikinn er Keflavík eitt liða taplaust í efsta sæti deildarinnar á meðan að Fjölnir er í 5.-7. sætinu með tvo sigra í fyrstu sjö leikjunum.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins var Keflavík það lið sem hafði komið hvað mest á óvart í deildinni, taplausar eftir fyrstu sex umferðirnar einar í efsta sætinu. Deildarmeistararnir frá því á síðustu leiktíð Fjölnir höfðu hinsvegar alls ekki haft jafn góðu gengi að fagna, unnið aðeins tvo leiki og tapað fjórum.

Í lið Keflavíkur í kvöld vantaði þær Ólöfu Óladóttur og Eygló Óskarsdóttur, munaði um minna fyrir liðið, en þær hafa báðar átt fína leiki í byrjun tímabils.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Keflavík sem byrjuðu leik kvöldsins. Pressuðu allan völl frá fyrstu mínútu leiksins og uppskáru 10 tapaða bolta í fyrsta leikhlutanum, en eftir fjórðunginn leiddu þær með 8 stigum, 12-20. Undir lok fyrri hálfleiksins hótar Keflavík að hlaupast á brott með leikinn en heimakonur gera vel að halda í við þær. Passa boltann aðeins betur í öðrum leikhlutanum, en missa Keflavík svo aftur lengra frá sér á lokamínútum hálfleiksins. Þrettán stiga munur þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 31-44.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Dagnýs Lísa Davíðsdóttir með 12 stig á meðan að í öllu jafnara liði Keflavíkur var Anna Ingunn Svansdóttir komin með 11 stig.

Keflavík fer langleiðina með að klára dæmið í þriðja leikhlutanum. Lítið sem ekkert sem heimakonur reyna gengur upp og þeirra atkvæðamesti leikmaður Dagný Lísa fær sína fjórðu villu um miðbygg leikhlutans. Staðan fyrir þann fjórða 22 stiga munur, 46-68. Leikurinn varð svo aldrei spennandi í lokmaleikhlutanum. Keflavík siglir að lokum mjög svo öruggum 19 stiga sigur í höfn, 72-91.

Atkvæðamestar

Daniela Wallen var best í liði Keflavíkur í kvöld með 18 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar. Stigahæstar í liðinu voru Birna Valgerður Benónýsdóttir með 20 stig og Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 23 stig.

Fyrir Fjölni var Taylor Jones atkvæðamest með 17 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar. Henni næst var Dagný Lísa Davíðsdóttir með 15 stig og 5 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 2. nóvember. Keflavík gegn Íslandsmeisturum Njarðvíkur í Ljónagryfjunni á meðan að Fjölnir fær Grindavík í heimsókn í Dalhús.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -