spot_img
HomeFréttirKeflavík sýndi klærnar og knúði fram annan leik

Keflavík sýndi klærnar og knúði fram annan leik

Leikur KR og Keflavíkur í kvöld bauð upp á allt sem að alvöru körfuknattleikur á að bjóða upp á en endir leiksins var hádramatískur og mátti litlu muna að Keflavík sigraði leikinn í venjulegum leiktíma. Keflvíkingar voru komnir með bakið upp við vegg og hreinlega þurftu á sigri að halda til að vera ekki sendir í frí. Þeir stóðust pressuna og halda nú í Toyotahöllina með blóðbragð í munni.
 
Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir KR eftir sigur Keflavíkur eftir framlengingu sem fer sennilegast í sögubækurnar fyrir það að vera ein sú langdregnasta í manna minnum en um níu mínútur tók að spila rúma eina leikmínútu.
Það var alveg ljóst að Keflvíkingar ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik en alveg frá fyrstu mínútu var stemningin þeirra og juku þeir muninn jafnt og þétt eftir að staðan hafði verið jöfn 6-6. Keflavík var komið átta stigum yfir, 12-20, þegar að Hrafn Kristjánsson þjálfari KR tók leikhlé til að skerpa á leik sinna manna. Keflvíkingar skiptu yfir í svæðisvörn og Brynjar Þór Björnsson smellti þrist í andlitið á Keflavíkurvörninni. Í næstu sókn minnkuðu KR –ingar muninn en meira eða í þrjú stig 17-20 en Magnús Gunnarsson svaraði fljótt.Eftir að hafa skipst á körfum til enda leikhlutans leiddu Keflvíkingar með sex stigum 21-27.
 
KR byrjaði með miklum látum í öðrum leikhluta með þriggja stiga körfu frá Hreggviði Magnússyni og Ólafi Ægissyni. KR náði að minnka muninn í eitt stig, 27-28, og skömmu seinna jafnaði Jón Orri Kristjánsson leikinn 29-29. Lítið var skorað á næstu mínútum en um miðjan leikhlutann leiddu bláir með fimm stigum 31-36. KR náði loksins að komast yfir þegar lítið var eftir af öðrum leikhluta með körfu frá Finni Magnússyni en það varði stutt við þar sem að Keflvíkingar svöruðu um hæl og tóku aftur forystu. KR jöfnuðu leikinn á ný og var restin af leikhlutanum gjörsamlega stál í stál en svo fór að Keflavík leiddi með fjórum stigum í hálfleik, 49-53.
 
Keflvíkingar komu virkilega einbeittir til leiks og juku muninn á ný. Það var alveg klárt mál að Hreggviður Magnússon ætlaði ekki að láta Keflvíkinga stinga neitt af og sallaði hann niður hverri þriggja stiga körfunni af fætur annarri og hreinlega dró vagninn fyrir KR-inga. Eftir þriðja leikhluta var Hreggviður kominn með 21 stig og flest þeirra í leikhlutanum. KR tók forystuna þegar fjórar mínútur voru eftir að leikhlutanum og áður en honum lauk voru þeir búnir að snúa leiknum sér í hag og leiddu með sex stigum fyrir loka hlutann.
 
Fjórði leikhluti var jafn og spennandi og skiptust liðin á að leiða. Keflvíkingar náðu fimm stiga forystu snemma í leikhlutanum og um miðjan hann leiddu þeir með þremur stigum 87-90. Hreggviður Magnússon jafnaði leikinn þegar um þrjár mínútur voru eftir en Keflvíkingar voru fljótir að svara með góðri körfu. Andrija Circ skoraði þrist fyrir Keflavík og litlu mátti muna að Magnús Gunnarsson hefði komið Keflavík í sex stiga forystu með öðru þriggja stiga skoti. Liðin skiptust á að körfum í næstu sóknum og þegar rétt tæp ein og hálf mínúta lifði leiks tóku KR-ingar leikhlé. Fannar Ólafsson fór af velli með fimm villur þegar ein mínúta var eftir af leiknum en hann klárað leikinn með 12 stig og 6 fráköst og munaði mikið um hann á lokasprettinum. Hörður Axel Vilhjálmsson kom Keflavík fimm stigum yfir og KR gerðu það sem þeir gátu til að jafna leikinn eða komast yfir.Þegar allt stefndi í sigur Keflvíkinga sem voru þremur stigum yfir þegar að 7 sekúndur lifðu leiks kom einn Brynjar Þór Björnsson hlaupandi upp völlinn og skoraði þriggja stiga körfu og jafnaði leikinn. Keflvíkingar tóku leikhlé þegar að tvær sekúndur voru eftir og fengu innkast á miðju. Boltinn barst úr innkastinu beint á Sigurð Þorsteinsson sem að hífði sig til lofts og reyndi viðstöðulaust sniðskot en boltinn rúllaði af hringnum og grípa þurfti því til framlengingar í stöðunni 106-106.
 
Keflvíkingar byrjuðu framlenginguna af miklum krafti og skoruðu fyrstu fimm stigin. Marcus Walker minnkaði muninn í 109-111 með þriggja stiga skoti og Keflavík fór í sókn. Finnur Atli Magnússon fékk sína fimmtu villu þegar að hann braut á Andrija Ciric í þriggja stiga skoti sem fór beint ofan í en hann klikkaði úr vítaskotinu á eftir. KR misnotaði sína sókn og Magnús Gunnarsson skoraði úr þriggja stiga skoti og kom Keflavík í 109-117.
 
Keflvíkingar voru komnir í vænlega stöðu þegar tvær mínútur lifðu leiks og leiddu með 12 stigum. Magnús jók muninn í 14 stig með tveimur skotum af línunni en Brynjar Þór Björnsson minnkaði muninn í 10 með fjögra stiga sókn. Boltinn var dæmdur af Keflvíkingum þegar þeir tóku innkast, Brynjar Þór fékk boltann og fór beint upp í þriggja stiga skot og brotið var á honum. Hann setti niður tvö þeirra og minnkaði muninn í átta stig þegar að ein og hálf mínúta var eftir af framlengingunni.
 
Nánast allar körfur Keflavíkur komu af vítalínunni á síðustu einni og hálfri mínútunni en KR-ingar brutu og brutu og freistuðu þess að komast inn í leikinn frá þriggja stiga línunni. KR-ingar minnkuðu muninn í fimm stig þegar að 24 sekúndur lifðu leiks og brutu svo á Magnúsi Gunnarssyni. Magnús setti niður bæði skotin og sókn KR-inga varð að engu. Brotið var á Thomas Sanders og hann endanlega gerði út um vonir KR með því að setja bæði skotin niður og koma Keflavík níu stigum yfir. Heimamenn náðu aðeins að klóra í bakkann undir lok leiks og minnkuðu muninn í 135-139 áður en yfir lauk.
 
Andrija Ciric fór hreinlega á kostum í leiknum en hann gerði sig lítið fyrir og skoraði 42 stig. Thomas Sanders skoraði 24 stig og tók 9 fráköst og Sigurður Þorsteinsson setti 20 stig og tók 11 stig.
 
Marcus Walker var stighæstur KR manna með 29 stig. Hreggviður Magnússon skoraði 28 stig og Brynjar Þór Björnsson var með 20. Minna sást af Pavel Ermolinskji í stigaskori í kvöld en kappinn var samt sem áður með 17 stoðsendingar og 15 fráköst.
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -