Keflavík sigraði Val í dominosdeild kvenna í kvöld eftir framlengdan leik en staðan eftir venjulegan leiktíma var 89:89. Það voru svo Keflavík sem skoruðu 11 stig gegn aðeins 2 frá Val í framlengingu og sigruðu leikinn. Eftir leikinn er Keflavík á toppnum með 8 stig líkt og Haukar og Snæfell.
Í byrjun voru það Keflavíkurstúlkur sem hófu leik af krafti og voru komnar fljótlega í 10:2. Ágúst Björgvinsyni leist lítið á blikuna og splæsti í leikhlé sem virkaði bara nokkuð vel því fljótlega voru það Valsstúkurnar sem höfðu jafnað leikinn og komust yfir og leiddu með 2 stigum eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta héldu liðin uppteknum hætti. Skoruðu á víxl og allt stefndi í að leikurinn myndi ráðast á lokamínútum jafnvel sekúndum. Seint í öðrum leikhluta fékk Carmen Tyson Thomas sína fjórðu villu og Sigurði þjálfara Keflavíkur leist lítið á blikuna og sendi hana á tréverkið. Carmen hafði þá þegar skorað grimmt og reynst Valsstúlku erfiður ljár í þúfu.
Keflavíkurstúlkurnar leystu nokkuð vel úr því að spila “kanalausar” í heilar 10 mínútur í seinni hálfleik en Carmen sat á tréverkinu allan þriðja leikhluta. í fjórða leikhluta voru það Valsstúlkur sem tóku sig til og komu sér í þægilegt 5 stiga forskot ef þá eitthvað var þægilegt í þeim efnum í þessum leik. Joanna Harden setti niður 3 þrista á skömmum tíma en hún kláraði leikinn með 36 stig þetta kvöldið. En þá tók við þáttur Carmen Tyson Thomas. Stúlkan nánast skoraði af vild og í raun ótrúlegt að sjá hana vera nánast lagða af stað í sóknarfrákast áður en hún kláraði skotið sitt.
Á lokakaflanum var það Joanna Harden sem kom Val í 87:89 og aðeinsum 24 sekúndur eftir af leiknum. Carmen Tyson Thomas fór þá yfir og jafnaði leikinn með huggulega gegnum broti og 15 sekúndur eftir af leiknum. Á þessum síðustu andartökum komu Valsstúlkur sér í afar gott færi til að klára leikinn en Guðbjörg Sverrisdóttir náði ekki að negla niður þrist sem hefði þá unnið leikinn.
Framlengingin var svo eign Keflavíkur með öllu. Valsstúlkur voru að fá fín galopinn skot hvað eftir annað en virtust vera “kvótalausar” á sín skot. Keflavík silgdu svo sigrinum í land og fögnuðu vel.
Sem fyrr segir Carmen Tyson Thomas með sinn allra besta leik fyrir Keflavík, 41 stig og 17 fráköst á aðeins 30 mínútum (með framlengingu) Hjá Val var Joanna Harden sem fyrr segir með 36 stig.
Punktar:
– Valsstúlkur söknuðu Kristrúnu Sigurjónsdóttir sem spilaði ekki með
– Keflavík vann frákastabaráttuna 62:41 og hirtu þar af 30 sóknarfráköst.
– Tíu sinnum skiptust liðin á forystunni í leiknum og 15 sinnum var jafnt.
Keflavík – Valur 100:91
TM höllin, Úrvalsdeild kvenna, 29. október 2014.
Keflavík: Carmen Tyson-Thomas 41/?17 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 16/?12 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 12/?8 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 9, Ingunn Embla Kristínardóttir 9/?11 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 7, Hallveig Jónsdóttir 3, Bríet Sif Hinriksdóttir 3.
Fráköst: 28 í vörn, 28 í sókn.
Valur: Joanna Harden 36/?4 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 14/?8 fráköst/?7 stoðsendingar, Ragnheiður Benónísdóttir 12/?4 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir 11/?7 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 10/?6 fráköst/?9 stoðsendingar, Margrét Ósk Einarsdóttir 6, Sara Diljá Sigurðardóttir 2.
Fráköst: 19 í vörn, 15 í sókn.
Dómarar: Georg Andersen, Gunnar Thor Andresson.