Keflavík reyndist ofjarl Breiðabliks í Smáranum

Keflavík bar sigurorð af Breiðablik í kvöld í þriðju umferð Subway deildar kvenna, 72-102.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins hafði Keflavík unnið báða leiki sína, gegn Njarðvík og Stjörnunni á meðan að Breiðablik hafði tapað báðum sínum, gegn Val og Njarðvík.

Byrjunarlið

Hjá Breiðablik byrjuðu Sóllilja Bjarnadóttir, Anna Soffía Lárusdóttir, Embla Hrönn Halldórsdóttir, Ragnheiður Björk Einarsdóttir og Brooklyn Pannell leikinn. Fyrir Keflavík voru það Daniela Morillo, Elisa Pinzan, Thelma Dís Ágústsdóttir, Anna Ingunn Svansdóttir og Birna Valgerður Benónýsdóttir sem byrjuðu inná.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Keflavík sem byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Eru snöggar að skapa sér smá forystu, eru 10 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta þar sem þær leiddu mest með 15 stigum, 15-25. Blikar gera vel undir lok fyrri hálfleiksins að missa Keflavík ekki algjörlega úr sjónmáli. Ná þó lítið að vinna á forskotinu, sem er enn 16 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 33-49.

Stigahæstar fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum voru Birna með 11 og Anna með 10 stig. Fyrir Blika var Brooklyn komin með 11 stig og henni næst var Ragnheiður með 8 stig.

Segja má að Keflavík hafi gert útum leikinn á fyrstu tveimur mínútum seinni hálfleiksins. Opna þriðja leikhlutann á góðu áhlaupi og eru 23 stigum yfir, 41-64. Þær láta svo kné fylgja kviði undir lok leikhlutans og eru komnar með 28 stiga forskot fyrir þann fjórða, 53-81. Bæði lið fara að hvíla byrjunarliðsleikmenn sína í lokaleikhlutanum. Þeir Blikar sem voru inná vellinum þá gera ágætlega gegn varaliði Keflavíkur. Niðurstaðan að lokum þó gífurlega öruggur sigur Keflavíkur 72-102.

Atkvæðamestar

Fyrir Keflavík var Birna Valgerður atkvæðamest með 19 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar, en í liði Blika var það Brooklyn Pannell sem dró vagninn með 17 stigum, 8 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 10. október, en þá tekur Keflavík á móti Fjölni og Breiðablik fær Hauka í heimsókn.

Tölfræði leiks