Keflavíkurstúlkur nældu sér í tvö stig gegn Fjölni í kvöld og halda þar með fast í toppsæti Iceland Express deildarinnar. Leikurinn var nokkuð jafn framan af en í fjórða leikhluta stakk Keflavík af og sigraði 82 – 69. Stigahæst í liði Keflavíkur var Jaleesa Butler með 20 stig, 17 fráköst og 5 varin skot en hjá Fjölni var Brittney Jones með 27 stig.
Í upphafi fyrsta leikhluta leit út fyrir að Keflavík ætlaði að gera út um leikinn en Fjölniskonur neituðu að gefast upp og byrjuðu að saxa á forskotið. Leikhlutinn fór 26 – 19 fyrir Keflavík. Það var svo í öðrum leikhluta þar sem fjörið fór að hefjast. Þegar aðeins um tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum fær Falur tæknivillu fyrir vel valin orð til dómaranna, þar sem hann var ekki sáttur við dómgæslu þeirra. Fjölnir var hins vegar að berjast vel og taka mikið af sóknarfráköstum, voru komnar með 24 stykki í hálfleik. Þegar rúm ein mínúta er eftir kemst svo Fjölnir yfir í fyrsta skiptið í leiknum 42 – 43 eftir að Jones nælir sér í „and 1“ og skorar að auki úr vítinu. Jones og Katina Mandylaris voru að spila mjög vel í leikhlutanum sem endaði 47 – 48 Fjölni í vil. Hjá Keflavík var Birna Valgarðs með 12 stig, Sara Rún Hinriksdóttir og Butler með 11 stig og Pálína Gunnlaugsdóttir með 9 stig í hálfleik. Hjá Fjölni var Jones með 18 stig og Mandylaris með 13 stig.
Jafnt var á tölum í gegnum allan þriðja leikhlutann. Leikurinn hægðist nokkuð frá fyrri hálfleik og var lítið skorað. Keflavík hertu vörn sína betur frá fyrri hálfleik og má segja að hún hafi skilað þeim forustunni í lok leikhlutans, 60 – 57, þar sem þær skoruðu ekki körfu utan af velli fyrr en á lokamínútu leikhlutans og auðvitað með „buzzer“ þristi frá Telmu Lind Ásgeirsdóttur.
Í fjórða leikhluta var eins og allt annað Keflavíkurlið hafi mætt til leiks. Þær skiptu yfir í fimmta gír og ætluðu greinilega ekki að gefa þessi tvö stig eftir sem í boði voru. Eftir fimm mínútur höfðu Keflavíkurstúlkur skorað 11 stig á móti þremur hjá Fjölni og var Sara Rún að fara mikinn fyrir Keflavík á þessum kafla. Forskotið fór þó mest upp í 15 stig, 80-65, í leikhlutanum og má segja að allt liðið hafi að vera að spila mjög vel í leikhlutanum á meðan lítið sem ekkert var að gerast hjá Fjölni. Leikurinn endaði síðan 82 – 69 Keflavík í vil.
Þrír leikmenn Keflavíkur tefldu fram tvennu í kvöld og þar af ein sem daðraði við þrennuna. Jaleesa Butler 20/17 fráköst/5 varin skot, Sara Rún Hinriksdóttir 19/13 fráköst (9 sóknarfr.), Pálína Gunnlaugsdóttir 17/8 fráköst/10 stoðsendingar. Þá var Birna Valgarðs einnig að spila vel í kvöld og skilaði 16 stigum og 7 fráköstum.
Hjá Fjölni var Katina Mandylaris að spila mjög vel og endaði með flotta tvennu 17 stig og 22 fráköst (10 sóknarfr.) en Britney Jones var stigahæst með 27 stig og 6 fráköst. Þess má þó geta að Fjölnir tóku ein 35 sóknarfáköst í leiknum og geri aðrir betur.
Mynd/ Eyþór Sæmundsson – [email protected] – Butler brýtur sér leið upp að körfu Fjölnis í kvöld.
Umfjöllun/ Rannveig Kristín Randversdóttir – [email protected]