Það voru læti í Toyotahöllinni í kvöld þegar Keflavík og Hamar mættust í Iceland Express deild karla í körfuknattleik en Keflavík spilaði lengi framan af leiknum glimrandi körfubolta og landaði öruggum sigri, 94-77. www.vf.is greinir frá.
Keflavík byrjaði mjög vel og náðu 11 stiga forskoti rétt eftir miðjan fyrsta fjórðung en að honum loknum var staðan 23-17. Thomas Sanders var drifkrafturinn í liði Keflavíkur og var hann með 10 stig og 6 fráköst eftir fyrsta fjórðung.
Skemmtunin hélt áfram hjá Keflavík og komust þeir í 27 stiga forskot snemma í öðrum fjórðungi. Magnús Gunnarsson fór loks að skjóta fyrir utan þriggjastiga línuna og gladdi það áhorfendur mjög. Staðan í hálfleik var 52-27 fyrir heimamönnum, öruggt forskot.
Keflavík náðu stærsta forskotinu í leiknum í þriðja fjórðungi en það var hvorki meira né minna en 32 stig. Thomas Sanders átti svakalega troðslu yfir hæsta körfuboltamann landsins, Ragnar A. Nathanaelsson en menn voru að líkja þessari troðslu við Jordan á sínum tíma.
Keflavík missti svo dampinn restina af leiknum en lönduðu þó öruggum sigri með 17 stigum. Lokatölur urðu 94-77 og voru gestirnir hamraðir heim.
Sigahæstur í liði Keflavíkur og í leiknum var sem áður fyrr Thomas Sanders með 29 stig og 14 fráköst. Honum á eftir í liði Keflavíkur komu Hörður Axel Vilhjálmsson með 22 stig, Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 15 sig og Þröstur Leó Jóhannsson með 11 stig.
Stigahæstur í liði Hamars var nýi leikmaðurinn þeirra Devin Antonio Sweetney með 24 stig en Ragnar Á. Nathanaelsson var frákasta mestur með 18 stk.
Fleiri myndir frá leiknum má skoða á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.