spot_img
HomeFréttirKeflavík b bikarmeistari í stúlknaflokki

Keflavík b bikarmeistari í stúlknaflokki

16:02
{mosimage}

Keflavík og Njarðvík mættust í annarri grannarimmu á bikarúrslitahelginni í dag en að þessu sinni voru það Keflavík b og Njarðvík í stúlknaflokki sem öttu kappi og hafði Keflavík betur 71-51 í leik sem verður seint sagður spennandi þar sem Keflvíkingar tóku snemma forystuna og unnu verðskuldaðan sigur.

Keflvíkingar voru sprækari í upphafi leiks og komust snemma í 9-4 en Njarðvíkingum tókst hægt og bítandi að vinna sig inn í leikinn þar sem Keflavík missti einbeitinguna í varnarleiknum þegar leið á upphafsleikhlutann. Keflavík leiddi 18-16 eftir fyrsta leikhluta þar sem þær Eva Rós Guðmundsdóttir og Árný Gestsdóttir voru báðar með 6 stig hjá Keflavík en Dagmar Traustadóttir var skæð í Njarðvíkurliðinu með 8 stig.

Aðeins eitt lið mætti í annan leikhlutann og það voru Keflvíkingar sem hreinlega rúlluðu yfir granna sína úr Njarðvík. Ína María Einarsdóttir kveikti smá von hjá Njarðvík með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 28-20 en þá tóku Keflvíkingar öll völd á vellinum og hertu tökin í vörninni. Keflavík þvingaði Njarðvík í erfið skot og lélegar sendingar og keyrðu vel upp hraðann í leiknum og leiddu því 43-21 gegn Njarðvík í leikhléi.

Eva Rós Guðmundsdóttir var stigahæst í hálfleik hjá Keflavík með 14 stig og 11 fráköst en í Njarðvíkurliðinu var Dagmar Traustadóttir með 9 stig og 6 fráköst.

{mosimage}

Njarðvíkingar gerðu sex fyrstu stig síðari hálfleiks gegn einu frá Keflavík og var Jón Guðmundsson þjálfari Keflavíkur ekki sáttur við sínar dömur og tók því leikhlé sem hafði góð áhrif á Keflvíkinga. Að leikhléinu loknu snéru Keflvíkingar taflinu við og það sem eftir lifði leiks voru þær mun sterkari aðilinn og unnu sanngjarnan 71-51 sigur á Njarðvík. Keflavík átti fjögur lið í bikarúrslitum þessa helgina og þau unnu öll sína leiki, sannarlega glæstur árangur hjá Keflavík!

Eva Rós Guðmundsdóttir var valin besti maður leiksins í liði Keflavíkur en hún fór á kostum með 23 stig, 20 fráköst og 5 stolna bolta. Þetta var í annað sinn í dag sem hún var valin best en hún hlaut þessa nafnbót einnig í viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur í 9. flokki kvenna. Hjá Njarðvík var Dagmar Traustadóttir atkvæðamest með 14 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar.

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -