Í fylki sem telst allt að því að vera vagga háskólaboltans í USA (North Carolina) er Elon University, tæplega 6000 manna skóli þar sem Margrét Kara Sturludóttir elur sinn kvennmann þessa dagana og væntanlega næstu 4 árin. Kara, eins og hún er jafnan kölluð, hefur spilað með meistaraliði Keflavíkur síðastliðin ár með árangri sem hefur skilað henni skólastyrk í Bandaríkjunum og um leið hefur lang þráður draumur hennar ræst. Karfan.is hafði samband við hnátuna og þrátt fyrir þétt setna stundaskrá hennar í skólanum náðum við tali af henni nú um helgina.
Nú þegar draumurinn hefur ræst, er þetta eins og þú bjóst við ? Þetta er bara æðislegt. Það er eins og maður sé að leika i amerískri bíómynd.
Í hvaða styrkleika er lið ykkar (miðað við önnur lið í sömu deild ) ? Liðið endaði um miðja deild i fyrra en það er búid að skipta um allt þjálfarastaffið síðan í fyrra og stefnt hærra. Gamli þjálfarinn var ekki alveg að vinna sína vinnu nógu vel og það eru bundnar miklar vonir við nýja þjálfarann sem er frábær.
Hvað hefur komið mest á óvart ? Þjálfunin hérna ásamt kennslunni er svo langt á undan í þróun og öðru miðað við heima að það er hálf hlægilegt.
Þjálfarinn segðu okkur aðeins frá honum ? Hún heitir Karen Barefoot og er fyrrum leikmaður. Hún var rosalegur leikmaður og á svakaleg met sem seint verða slegin. Hún er enn eini leikmaðurinn i NCAA bæði karla og kvenna til að skora yfir 2000 stig og gefa 1000 stoðsendingar. Þetta er fyrsta árið hennar hérna í Elon en hun kemur fra ODU, Old Dominion University þar sem hún var aðstoðar þjálfari. Þeim gekk mjög vel í fyrra og komust í “Sweet 16”. Þær voru “rank-aðar” Nr. 11 á landsvísu hér í fyrra.
Hvernig er að vakna eldsnemma alla morgna til að fara á körfuboltaæfingu? Það er erfitt að rífa sig upp á morgnana og drífa sig uppí íþrottahús en ef maður veit hvert maður stefnir og hvaða markmiðum maður ætlar að ná þá er þetta miklu auðveldara. Maður nær ekki árangri odruvisi en ad æfa bara nógu mikið.
Hver er helsti munurinn á æfingunum þarna úti og hér heima ? Hérna er farið mun ítarlega í öll undirstöðu atriði og þar af leiðandi verður leikurinn mun betri. Hérna er líka lögð rosaleg áhersla á líkamsstyrk og þar er ad mínu mati helsti munurinn. Ef þú ert sterkari líkamlega þá spilarðu betri vörn. Það geta allir “shake-að og bake-að” og skotið en hvor er sterkari.
Hvað munt þú koma til með að læra ( Aðalfag) ? Ég er i “PreMed” núna sem er eins og grunnnám í læknisfræði en ég þarf í rauninni ekkert að ákveða neitt strax. Ég er voða róleg yfir þessu öllu saman.
Hvernig að að búa á “Campus” ?
Það er öðruvísi en að vera heima a hótel mömmu með endalausum fríðindum. Maður þarf að venjast því ad deila herbergi með öðrum og svona. En þetta er bara spennandi og nýtt . En eins og einhver sagði “Heima er best” 🙂
Við þökkum Köru fyrir spjallið og munum að sjálfsögðu fylgjast vel með og birta hér á síðunni fréttir af gengi hennar í "amerísku bíómyndinni".
Mynd: Snorri Örn