spot_img
HomeFréttirKara slökkti vonir Snæfells í Vesturbænum (Umfjöllun)

Kara slökkti vonir Snæfells í Vesturbænum (Umfjöllun)

 
Íslandsmeistarar KR tóku Snæfell í stutta kennslustund í Iceland Express deild kvenna í dag. Margrét Kara Sturludóttir slökkti í Hólmurum í upphafi þriðja leikhluta með þremur eitruðum þristum í röð og Snæfell sá aldrei til sólar eftir það útspil Köru sem gerði 24 stig í leiknum fyrir meistarana. KR hefur nú 4 stig eftir jafn margar umferðir en Snæfell situr enn á botni deildarinnar án stiga. 
Fyrri hálfleikur var afskaplega rólegur þar sem KR leiddi 15-9 eftir fyrsta leikhluta en í öðrum bitu Hólmarar frá sér. Guðrún Gróa fékk sína þriðju villu í liði KR þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks og Hólmarar jöfnuðu metin í 21-21 þar sem Hildur Björg Kjartansdóttir átti fína spretti fyrir gestina. Rauðir rifu sig svo lítið eitt frá KR og leiddu 24-28 í hálfleik en það virtist vekja heimakonur sem mættu sterkar til leiks síðustu 20 mínúturnar.
 
Margrét Kara Sturludóttir gerði þrjá eitraða þrista í röð fyrir KR sem skoruðu 25 stig gegn 7 hjá Snæfell og þegar mest lét gerði KR 25 stig í röð án þess að Hólmarar næðu að skora en þá var fjórði hluti hafinn og staðan orðin 51-33 KR í vil og ljóst í hvað stefndi.
 
Sade Logan, Bandaríkjamaður Snæfells, átti hrikalega dapran dag rétt eins og gegn Keflavík á dögunum og ljóst að hún þarf heldur betur að gyrða í brók, að öðrum kosti getur hún bara farið að skoða Duty Free bæklinginn.
 
Snæfell náði aldrei að sýna svipaðan leik og þær gerðu í öðrum leikhluta og því var lokahnykkurinn auðveldur fyrir KR sem lék flotta vörn í síðari hálfleik. Lokatölur 68-40 KR í vil sem virðast vera að ná áttum eftir brösugt upphaf á keppnistímabilinu.
 
Margrét Kara Sturludóttir var í sérflokki í dag með 24 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Snæfell var Helga Hjördís Björgvinsdóttir með 10 stig en erlendu leikmenn Snæfells gerðu samtals 9 stig í leiknum og þurfa að herða róðurinn ef Hólmarar ætla sér stig í deildinni á næstunni.
 
Athyglisvert var að Snæfell fór aðeins einu sinni á línuna í leiknum en þann heiður hlaut Berglind Gunnarsdóttir sem setti aðeins niður annað vítið.
 
KR: Margrét Kara Sturludóttir 24/13 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Hildur Sigurðardóttir 15/10 fráköst/6 stoðsendingar, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 8, Aðalheiður Ragna Óladóttir 7, Bergdís Ragnarsdóttir 4/3 varin skot, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 4/6 fráköst, Helga Einarsdóttir 2/5 fráköst, Rut Konráðsdóttir 2, Hafrún Hálfdánardóttir 2/8 fráköst, Sigríður Elísa Eiríksdóttir 0, Helga Hrund Friðriksdóttir 0, Ingunn Erla Kristjánsdóttir 0.
 
Snæfell : Helga Hjördís Björgvinsdóttir 10/5 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 9/4 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 7/5 stoðsendingar, Inga Muciniece 6/15 fráköst, Sade Logan 3/5 fráköst/4 varin skot, Sara Mjöll Magnúsdóttir 2/4 fráköst, Ellen Alfa Högnadóttir 2, Berglind Gunnarsdóttir 1, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0, Aníta Sæþórsdóttir 0, Rósa Indriðadóttir 0/5 fráköst.
 
Dómarar: Erlingur Snær Erlingsson, Isak Ernir Kristinsson
 
Myndasafn og umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – nonni@karfan.is
Fréttir
- Auglýsing -