22:02
{mosimage}
(Jón Arnór var einn af fáum KR-ingum með lífsmarki í dag)
,,Við vorum alveg hrikalega lélegir í dag og það vantaði einhvern veginn þennan andlega part í okkar leik og við brotnuðum alltof snemma,“ sagði Jón Arnór Stefánsson sem í kvöld var skásti maður KR með 26 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst þegar KR steinlá gegn Grindavík 94-107 í DHL-Höllinni. Þetta var fyrsti ósigur KR á heimavelli þessa leiktíðina og nú leiðir Grindavík úrslitaleinvígið 2-1.
,,Við lentum á tíma 30 stigum undir og það er ekkert eðlilegt í úrslitum og við þurfum að breyta einhverju hjá okkur, kafa djúpt í andlega þáttinn,“ sagði Jón og viðurkenndi að skriðþunginn væri Grindavíkurmegin þessa stundina.
,,Þeir eru miklu betri en við eins og staðan er í dag,“ sagði Jón og bætti við: ,,Við þurfum að sanna það að við séum bestir í toppstykkinu líka. Þannig vinnur þú titla og ég veit að við erum bestir andlega en núna erum við uppi við vegg og þurfum svo sannarlega að sýna að við séum besta liðið á landinu, við erum með langbesta liðið og mætum í Grindavík á laugardag og förum þangað til að rústa þessu liði,“ sagði Jón ákveðinn og hefur hann vísast í huga svipaða meðferð og KR fékk á heimavelli í dag.
,,Við erum að fara að vinna í Grindavík og koma með einvígið hingað í frábæran oddaleik og við erum að fara að taka dolluna í DHL-Höllinni á mánudag. Þetta er ekkert búið, það er nóg eftir og Grindvíkingar mega fagna eins og þeir vilja. Við mætum í Grindavík og hirðum þann leik og næsta leik eftir það,“ sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við Karfan.is eftir leikinn í kvöld.