spot_img
HomeFréttirJón Arnór Stefánsson: Þurfum fleiri auðveldar körfur

Jón Arnór Stefánsson: Þurfum fleiri auðveldar körfur

8:00

{mosimage}

Annar leikur Siena og Roma í úrslitaeinvíginu á Ítalíu fer fram í kvöld á heimavelli Siena. Siena vann fyrsta leikinn á þriðjudag og leiða því 1-0 í einvíginu, en sigra þarf í fjórum leikjum til að tryggja sér titilinn. Jón Arnór Stefánsson átti prýðilegan leik fyrir Roma á þriðjudag og við heyrðum í kappanum og spurðum aðeins út í fyrsta leikinn og eins leikinn í kvöld.

Hvað vantaði upp á í fyrsta leiknum?
Við vorum bara nokkuð sáttir með okkar leik..við börðumst vel og viljinn var fyrir hendi. Við vorum inn í leiknum í 38 mínútur þrátt fyrir að hafa spilað langt frá okkar besta leik sóknarlega. Þannig að við erum bara vongóðir og spenntir fyrir næsta leik. Það var margt jákvætt við okkar leik en þá má bæta margt og við förum yfir þá hluti í dag.

Við spiluðum lélega vagg og veltu vörn á móti þeim, þeir fengu of margar auðveldar körfur upp úr því. Vörnin var ágæt samt þegar yfir heildina er lítið, stoppuðum hraðaupphlaupin hja þeim og gegnumbrotin að mestu leyti sem var eitt af okkar takmörkum fyrir þennan leik.  Sóknarlega gerðum við of mörg mistök í 4. leikhluta, töpuðum boltanum klaufalega sem reyndist mjög dýrt fyrir okkur. Við vorum ekki að hlaupa kerfin okkar neitt sérstaklega vel, þeir spiluðu mjög stífa vörn á okkur og fengu oft að komast upp með mikið af snertingu undir körfunni. Þeir skutu 24 vítum í leiknum móti okkar 8, þar af voru 6 eftir bónus..sem er svolítið skemmtileg tölfræði. 

Sáttur við eigið framlag?
Ég var mun einbeittari en ég hef verið i undanförnum leikjum og var virkilega stemndur fyrir leikinn. Ég byrjaði inná og spilaði bara vel í vörn og sókn, tók opnu skotin og náði 4 fráköstum og stal 3 boltum. Ég hefði viljað fá að spila aðeins meira í 4. leikhluta en annars bara rólegur. Ég fékk tvo galopin þriggja stiga skot sem ég er fúll yfir að hafa ekki hitt. Ég á fullt inni og get gert miklu betur í næstu leikjum.

Hvað á að gera til að vinna leikinn í kvöld?
Við funduðum í gær og horfðum á allan leikinn, fórum yfir þá hluti sem við þurfum að bæta. Það voru færslur í vörninni og einhverjar breytingar sóknarlega. Við þurfum að keyra meira á þá og fá auðveldar körfur upp úr hraðaupphlaupum, þeir eru mjög sterkir 5á5 varnarlega og þess vegna er það rosalega mikilvægt að skora á þá þannig. Við þurfum að fá boltann meira inn í á bakverðina okkar, spila post up með Ukic á móti McIntyre sem er þeirra aðal sóknarmaður, fá hann í villuvandræði. Kerfin verða líka að rúlla betur, þeir eru oft að komast inn í sendingarlínurnar hjá okkur og trufla þannig sóknina.

Hvað þarft þú að bæta til að þið vinnið?
Fyrst og fremst þurfum við að spila til að vinna. Við þurfum allir að spila okkar besta leik til þess að vinna Siena, hvort sem það er á heimavelli eða útivelli. Ég þarf að vera mjög einbeittur og trúa á sjálfan mig og mína menn, peppa liðið upp, spila mína bestu vörn, dreifa boltanum sóknarlega og hitta úr þeim skotum sem ég fæ.

Leikurinn hefst kl 21 að ítölskum tíma í kvöld sem er 19 að íslenskum og er hægt að fylgjast með lifandi tölfræði útsendingu hér.

[email protected]

Mynd: www.virtusroma.it

 

Fréttir
- Auglýsing -