Jón Arnór Stefánsson landsliðsmaður hefur samið við ACB lið Unicaja Malaga á Spáni til eins árs, en þetta staðfesti Jón í samtali við Karfan.is nú rétt áðan. “Þetta er vissulega léttir og gott að vera búin að semja. Ég flýg á morgun til Malaga og fer í læknisskoðun og skrifa svo undir samning” sagði Jón sem staddur er í Dallas þar sem hann hefur verið við æfingar síðustu vikur.
“Ég er búin að vera að æfa með einkaþjálfara og svo hef ég tekið einstaklingsæfingar með öðrum svona “skill work” æfingar. Þetta er búið að vera voða fínt, fór niður í höll um daginn (AA Center) og hitti gömlu Mavericks félagana sem var mjög skemmtilegt. Þeir eru á fullu allir að undirbúa sig fyrir camp sem byrjar í næstu viku.” sagði Jón enn frekar.
Malaga liðið endaði deildina í fyrra í fjórða sæti og því ljóst að metnaður þar á bæ er mikill en liðið hefur loðað við efri hluta ACB deildarinnar á Spáni síðustu árinn.
Okkur lá hinsvegar forvitni að vita þar sem Jón var kominn inná skrifstofu til Donnie Nelson hjá Mavericks hvort aldrei hafi verið ræddur samningur. “Við ræddum ýmislegt og rifjuðum upp en það kom aldrei til greina að ég væri að fara á samning hjá þeim.” sagði Jón að lokum.