spot_img
HomeFréttirJóhannes: Búinn að gera það sem ég ætlaði mér

Jóhannes: Búinn að gera það sem ég ætlaði mér

00:47
{mosimage}

(Jóhannes Árnason mun ekki þjálfa KR á næstu leiktíð)

,,Ég er mjög stoltur af því sem ég hef gert fyrir KR. Við erum búin að umbreyta starfi sem var ein rúst og höfum komið liðinu í fjölda úrslitaleikja. Við höfum endurreist virðingu kvennakörfunnar í KR svo ég er mjög stoltur af því sem við höfum verið að gera. Það er engin skömm að því að tapa hér fyrir Haukum því þær eru með einn frábæran útlending og stórar og dulegar stelpur í teignum,“ sagði Jóhannes Árnason þjálfari KR í samtali við Karfan.is eftir að Haukar lögðu KR 69-64 í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Jóhannes tjáði Karfan.is einnig að hann muni ekki stýra liðinu á næstu leiktíð.

,,Í fyrra voru sum liðin með tvo erlenda leikmenn og í ár voru mörg lið með erlenda leikmenn og Haukar voru með tvo slíka en það er ekki partur af því prógrammi sem við vorum að vinna út frá í KR og við höfðum bara engan áhuga á því að fara út af okkar prógrammi. Það getur vel verið að einhver þjálfari hefði gert það en það var alls ekki það sem ég ætlaði að gera,“ sagði Jóhannes og bætti við að því sögðu að loku væri þar af leiðandi ekki skotið fyrir það að KR yrði með erlendan leikmann á næstu leiktíð.

,,Markmiðið í ár var að taka slaginn útlendingalaust og vinna áfram að þeim markmiðum sem við settum okkur,“ sagði Jóhannes en hvað var það sem var ekki að smella hjá KR að Ásvöllum í kvöld?

,,Slavica átti ekki að skora 27 stig! Það var alveg á kristaltæru en hún bara vann þennan leik fyrir þær,“ sagði Jóhannes sem mun ekki þjálfa KR á næstu leiktíð.

,,Ég er búinn að gera það sem ég ætlaði að gera og nú bara fær einhver annar að halda áfram og byggja upp eitthvað stórveldi sem við verðum öll áfram stolt af að vera í kringum. Nú er það bara mitt hlutverk að halda áfram að styðja stelpurnar og passa upp á að framtíðin verði björt,“ sagði Jóhannes að lokum en hann tók við KR í 1. deild ásamt Óla Ásgeiri Hermannssyni. Saman fóru þeir félagar með KR upp í úrvalsdeild og beint inn í úrslit gegn Keflavík og lönduðu silfri. Í ár landaði Jóhannes Subwaybikarnum með KR og silfri á Íslandsmótinu. Glæstur árangur á aðeins þremur árum.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -