Hólmarar misstu Jay Threatt meiddan af velli í gærkvöldi þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks er Snæfell heimsótti Stjörnuna í Ásgarð í undanúrslitum Domino´s deildar karla. Threatt fór úr tálið en er óbrotinn að sögn Inga Þórs Steinþórssonar þjálfara Snæfells.
Leikmaðurinn fór í röntgenmyndatöku í morgun og þá kom þetta í ljós. Ingi sagði Threatt hafa verið sárþjáðan og að liðbönd og liðir væru skaddaðir og óvíst hvenær hann væri leikfær á ný.
Þriðja undanúrslitaviðureign Snæfells og Stjörnunnar fer fram í Stykkishólmi á mánudag og eru litlar líkur á því að Threatt verði með að sögn Inga Þórs.
Mynd/ Heiða – Threatt meiðist í leiknum í gærkvöldi.