09:24
{mosimage}
,,Við ræddum það fyrir leikinn að nú í fyrsta sinn á tímabilinu værum við minna liðið í stöðunni 2-1 og það hafa flestir hreinlega gefið sér það frá upphafi leiktíðar að við myndum vinna Íslandsmótið. Grindavík er frábært lið og því vitum við að við þurfum að berjast af öllu okkar afli gegn þeim og erum nú spenntir fyrir því að vera komnir í oddaleikinn, sagði Jason Dourisseau leikmaður KR í samtali við Karfan.is eftir viðureign liðanna í Röstinni. Jason gerði 27 stig í leiknum, tók 9 fráköst og stal 3 boltum og var ásamt Fannari Ólafssyni besti maður vallarins er KR nældi sér í oddaleik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla.
,,Gegn Grindavík verðum við berjast vel í fráköstunum og ná að stöðva Grindavík endrum og sinnum í vörninni. Við viljum ekki gefa þeim mörg tækifæri á því að skora því Grindvíkingar nýta alla sénsa sem fást, sagði Jason en við hverju býst hann í DHL-Höllinni í oddaleiknum á mánudag?
,,Þetta verður hörkuleikur og við erum spenntir fyrir mánudeginum sér í lagi þar sem svo margir höfðu afskrifað okkur eftir síðasta leik. Nú eru þetta tvö frábær lið sem mætast í oddaleik svo ég er ánægður með það, sagði Jason sem vafalítið verður í eldlínunni í oddaleiknum á mánudag.