spot_img
HomeFréttirÍslenska liðið flott á köflum í tapi gegn Ísrael

Íslenska liðið flott á köflum í tapi gegn Ísrael

 

Ísland tapaði fyrir Ísrael, 74-81, í öðrum leik sínum á æfingamóti undir 20 ára landsliða í Laugardalshöllinni í kvöld. Bæði lið því með einn sigur og eitt tap, en síðasti leikur Íslands á mótinu er á morgun kl. 20:00 gegn Finnlandi.

 

 

Gangur leiks

Leikurinn í kvöld var nokkuð kaflaskiptur hjá íslenska liðinu. Í upphafi virtust þeir betri, leiddu eftir fyrsta leikhluta 24-23. Annan leikhlutann hófu þeir svo nokkuð vel, en undir lok hálfleiksins kom hreint agalegur kafli hjá þeim sem hleypti gestunum í forystu. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik leiddi Ísrael með 3 stigum, 39-42.

 

Seinni hálfleikurinn var svo jafn og spennandi. Eftir þrjá leikhluta leiddu gestirnir þó enn, 55-57. Enn var jafnræði á með liðunum lungað úr lokaleikhlutanum, eða allt þangað til að það voru 3 mínútur eftir, í stöðunni 73-73. Ísland skoraði aðeins 1 stig á þessum lokasprett á móti 8 stigum Ísrael. Fór svo að lokum að Ísrael sigraði með 7 stigum, 74-81.

 

 

Kjarninn

Eins og áður hefur komið fram var þessi leikur hjá íslenska liðinu alveg einstaklega kaflaskiptur. Á tímum litu þeir út fyrir að eiga að fara auðveldlega með þennan leik, en á öðrum stundum velti maður fyrir sér afhverju Ísrael væri ekki að slátra leiknum. Heilt yfir, séu slæmu kaflarnir teknir út, litu íslensku drengirnir nokkuð vel út og var virkilega gaman að fylgjast með þessum leik.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Mótið sem bæði þessi lið spila á þessa stundina er gert til æfinga. Fjöldi tapaðra bolta í samræmi við þá staðreynd. Ísland tapaði 22 boltum á móti 18 hjá Ísrael.

 

 

Kári

Leikmaður Íslands, Kári Jónsson, á skilið sérstakan kafla í þessari umfjöllun. Átti stórkostlega spretti í þessum leik. Á 28 mínútum spiluðum skoraði hann 26 stig, tók 4 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 2 boltum. Að öðrum ólöstuðum besti mður vallarins í kvöld.

 

 

Næsti leikur

Liðin eiga bæði leiki á morgun. Ísrael leikur gegn Svíþjóð kl. 17:00 og Ísland gegn Finnlandi kl. 20:00. Það munu vera síðustu leikir þessa annars frábæra móts þetta árið.

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn leiksins

 

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

 

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -