spot_img
HomeFréttirÍR tryggði sér sigur á lokasekúndunni

ÍR tryggði sér sigur á lokasekúndunni

Úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunni í Hertz-hellinum í kvöld þegar ÍR tók á móti Þór frá Akureyri í 1. deild kvenna. Eftir jafnan og spennandi leik áttu heimakonur í ÍR lokakörfuna og tryggðu sér með henni tveggja stiga sigur, 57-55. Þetta er þriðji sigur ÍR í deildinni í vetur en þær sitja nú í 5. sæti með 6 stig eftir 8 leiki en Þór situr í 4. sæti með 10 stig eftir 9 leiki.

Lokamínúturnar
Lokafjórðungurinn var gríðarlega spennandi og munaði aldrei meira en 2 stigum á liðunum allan leikhlutann. Eftir að Birna Eiríksdóttir kom ÍR yfir í stöðunni 55-53 jafnaði Heiða Hlín Björnsdóttir leikinn, 55-55, þegar um hálf mínúta var eftir. ÍR heldur í sókn en tapa boltanum heldur klaufalega þegar 28 sekúndur eru eftir á klukkunni. Þórsarar taka leikhlé og halda í sókn að loknu leikhlé, Heiða Hlín sækir að körfunni og reynir skot sem ratar ekki rétta leið. Hanna Þráinsdóttir nær frákastinu og ÍR heldur í sókn. Boltinn berst til Nínu Jennýjar undir körfunni en skot hennar er varið og boltinn fer útaf. ÍR á því innkast með tæpar 2 sekúndur eftir á klukkunni og taka leikhlé. Úr innkastinu berst boltinn síðan til Hönnu Þráinsdóttur sem er galopin undir körfunni, Hanna setur niður skotið í þann mund sem tíminn rennur út og tryggir ÍR þriðja sigur liðsins í vetur. 

Tölfræðin lýgur ekki
Skotnýting liðanna er nánast hin sama eða 28% hjá ÍR á móti 27% hjá Þór. ÍR tapar 17 boltum á móti 20 töpuðum boltum Þórs en Akureyringar vinna frákastabaráttuna með 6 fráköstum, 52 á móti 58, þrátt fyrir að hafa spilað án Helgu Rutar sem hefur tekið tæp 14 fráköst að meðaltali í þeim 6 leikjum sem hún hefur leikið fyrir Þór í vetur. 

Hins vegar hljóta Þórsarar að sjá á eftir þeim 12 vítum sem fóru forgörðum í leiknum en þær nýttu einungis 14 af 26 vítum sínum. Vítanýting heimakvenna var að sama skapi ekkert til að hrópa húrra fyrir en þær settu niður 11 skot af 20 frá vítalínunni.

Hetjan 
Að öðrum ólöstuðum þá var Hanna Þráinsdóttir hetja ÍR í kvöld. Hún setti niður stigin tvö sem tryggðu ÍR sigurinn og var óþreytandi í að hvetja samherja sína áfram í leiknum. Hanna var bæði stiga- og frákastahæst í liði ÍR með 19 stig og 17 fráköst auk þess sem hún stal 4 boltum. Birna Eiríksdóttir var næststigahæst í liði ÍR með 18 stig og Nína Jenný Kristjánsdóttir bætti við 7 stigum og tók 7 fráköst.

Hjá Þór var Heiða Hlín Björnsdóttir stigahæst með 22 stig og 9 fráköst og Árdís Eva Skaftadóttir skoraði 10 stig.  

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik

ÍR: Hanna Þráinsdóttir 19/17 fráköst, Birna Eiríksdóttir 18, Nína Jenný Kristjánsdóttir 7/7 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 5, Bryndís Gunnlaugsdóttir 4/6 stoðsendingar, Elín Kara Karlsdóttir 2, Sigríður Antonsdóttir 2/5 fráköst, Katla Marín Stefánsdóttir 0/7 fráköst, Guðrún Eydís Arnarsdóttir 0, Rannveig Bára Bjarnadóttir 0, Hlín Sveinsdóttir 0, Snædís Birna Árnadóttir 0.

Þór Akureyri: Heiða Hlín Björnsdóttir 22/9 fráköst, Árdís Eva Skaftadóttir 10, Sædís Gunnarsdóttir 8/5 fráköst, Hrefna Ottósdóttir 5/9 fráköst, Gréta Rún Árnadóttir 3, Alexandra Ósk Guðjónsdóttir 3, Erna Rún Magnúsdóttir 2/7 fráköst, Kristín Halla Eiríksdóttir 2/7 fráköst, Særós Gunnlaugsdóttir 0/9 fráköst, Karen lind Helgadóttir 0.  

Fréttir
- Auglýsing -