22:00
{mosimage}
(Félagarnir Ingi Þór og Benedikt þegar allt var í járnum í gærkvöldi)
,,Ég á bágt með að finna lýsingarorð til að lýsa því hvernig þessi úrslitakeppni er búin að vera en þetta er þvílíkur sigur fyrir körfuboltann í landinu og er náttúrulega bara frábært,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson aðstoðarþjálfari KR í samtali við Karfan.is í gærkvöldi eftir að röndóttir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla.
,,Grindvíkingar sópuðu að sér mannskap í sumar og svo komu Jón Arnór og Jakob Örn heim til Íslands og það var bara flugeldasýning sem er búin að standa í allan vetur og umræðan hefur öll verið um okkur. Við fórum með drullusterkt lið í gegnum mótið og fengum mikla pressu í hausinn á okkur, það sást bersýnilega í leik þrjú hér heima en við snérum blaðinu við og fórum djúpt, fórum alveg í sálfræði 603. Viðsnúningurinn var þvílíkur!“ sagði Ingi Þór og dáðist að karakternum í KR liðinu.
,,Það var enginn tilbúinn til þess að hætta og að koma öllum þessum uppöldu KR-ingum saman sem við Benedikt höfum þjálfað síðan flestir þeirra voru 10 ára er að segja manni að maður var að gera eitthvað rétt með því að djöflast í þessu öll þessi ár, dag og nótt,“ sagði Ingi og það var ljóst á aðstoðarþjálfaranum að hann var að uppskera vel.
,,Þetta eru strákar sem maður var að þjálfa kannski fyrir meira en áratug og maður fylgdi þeim upp landsliðin og það er vart hægt að lýsa þessu en þetta er glæsileg útborgun sem maður er að fá hérna,“ sagði Ingi Þór hrærður í DHL-Höllinni eftir að Íslandsmeistaratitillinn fór þar á loft í gærkvöldi.