spot_img
HomeFréttirIngi Þór: Sáttur að klára leik kvöldsins

Ingi Þór: Sáttur að klára leik kvöldsins

 
,,Ég var mjög sáttur að klára leikinn í Grafarvogi á föstudagskvöldið en sá leikur var ótrúleg upplifun. Ég var einnig mjög sáttur að klára leik kvöldsins, það getur oft farið í toppstykkið þegar leikmenn sjá ameríkana liðsins sem leika á gegn borgaralega klæddann að hætti Dabba T og halda jafnvel að verkefnið sé sjálfunnið. Það var því mjög mikilvægt að klára verkefnið,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells eftir sigurinn á Keflavík í kvöld.
,,Við eigum töluvert í land með að vera búnir að ná saman eftir þær breytingar sem liðið hefur gengið í gegnum, ég er ekkert að sjá önnur lið geta misst það sem fór héðan úr liðinu en að sama skapi er ég stoltur af þeim leikmannahóp sem við höfum á að skipa, hann er vel blandaður og við eigum eftir að bæta okkur með hverjum leiknum sem við leikum saman. Leikmenn eru að njóta þess að spila fyrir Snæfell og það skiptir mestu máli,“ sagði Ingi sem stýrir Hólmurum gegn Njarðvík í næstu umferð.
 
,,Það er alltaf spennandi að koma til Njarðvíkur að spila, frábært íþróttahús og ávallt áskorun að leggja sig fram þar. Njarðvíkingar unnu góðan útisigur í kvöld í Hellinum og ætla áreiðanlega að fylgja því eftir með sigri í Ljónagryfjunni. Við ætlum okkur aðra hluti og munum mæta stemmdir til leiks, það verður ekkert ,,Houston we have a problem.“
 
Fréttir
- Auglýsing -