,,Sade er góður leikmaður en hún er ekki í standi eins og er,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells eftir 68-40 ósigur liðsins gegn Íslandsmeisturum KR í Iceland Express deild kvenna í dag. Sade átti sinn annan dapra leik í röð og ljóst að Hólmarar mega ekki við farþegum í sínu liði enda stigalausir á botni deildarinnar.
,,Ég var mjög stoltur af liðinu mínu í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik vorum við bara ekki með og við bara skömmumst okkar fyrir það, þetta var alveg eins og á móti Keflavík. KR spilaði fast og komst upp með það, við erum með ungar stelpur og þær bara hörfuðu,“ sagði Ingi og bætti við að aðeins þrír leikmenn í liðinu, tveir erlendir leikmenn og Rósa Indriðadóttir, væru einu leikmenn liðsins sem ekki væru unglingaflokksleikmenn.
,,Af þessum sökum erum við ekkert að setja markið of hátt, við skömmumst okkar ekkert fyrir að tapa gegn KR hérna en þegar við hendum leikjunum frá okkur þá er maður ósáttur. Við erum einum leik á eftir okkar markmiði en það hefur ekkert breyst og við höfum ekki efni á því að hafa neina farþega í liðinu og ef kaninn okkar ætlar að vera einhver farþegi þá sleppi ég henni frekar. Næst er svo Fjölnir og við þurfum bara að gyrða í brók fyrir þann leik enda mjög mikilvægur.“