spot_img
HomeFréttirÍA lagði Ármann í framlengdum leik

ÍA lagði Ármann í framlengdum leik

Nýliðar Skagamanna tóku á móti Ármanni á Akranesi í gærkvöldi í 11. umferð 1. deildar. Fyrir leikinn höfðu Skagamenn 4 stig en Ármenningar 8. 
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en gestirnir ávallt með frumkvæðið og tölur eins og 7-9 og 12-18 sáust á stigatöflunni en leikhlutanum lauk 17-18 fyrir Ármann. Daði Berg og Þorsteinn Húnfjörð voru að spila vel hjá gestunum.
 
Skagamenn byrjuðu annan leikhluta mjög vel og skoruðu fyrstu níu stigin og voru skyndilega komnir 26-18 yfir. Svo þegar fjórar mínútur voru eftir af öðrum leikhluta settu gestirnir í gírinn en á meðan gekk ekkert upp hjá heimamönnum. Ármenningar breyta stöðunni úr 30-29 í 34-46 og þannig lauk öðrum leikhluta. Á þessum kafla voru Halldór Kristmannsson og Daði Berg góðir fyrir gestina. Hjá heimamönnum Voru aðeins Jóhannes Helgason og Dagur Þórisson með lífsmarki.
 
Ræða Brynjars þjálfara Skagaliðsins virkaði greinlega því Skaginn kom mjög grimmur inn í þriðja leikhluta. ÍA-liðið skorar 14-4 runn og voru á augabragði komnir inn í leikinn aftur og staðan 48-51 fyrir Ármann. Tölur eftir þetta voru 51-55 og 55-61 og leikhlutinn endaði 59-61 fyrir Ármann, ÍA vann þennan leikhluta 25-15. Áskell Jónsson átti stórleik fyrir heimamenn í þessum hluta og gerði strákurinn 12 stig og Hörður Nikulásson gerði 8. Hjá gestunum gerði Halldór Kristmannsson 6 stig og Daði Berg gerði 4 stig.
 
Í fjórða leikhluta var spennan mikil en Ármenningar leiddu allan leikhlutan og virtust vera að landa góðum sigri þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og staðan 77-83. Þá neituðu Skagapiltar að gefast upp og hertu vörnina og þeir klikkuð vart á skoti á þessum kafla. Þegar 40 sekúndur eru eftir minnkar Halldór Gunnar muninn með góðri þriggja stiga körfu og staðan 85-88. Ármann missir boltann í næstu sókn og Skagamenn halda í sókn og Halldór tekur skot en geigar, tekur sóknarfrákastið sjálfur og sendir boltann á Trausta Frey og hann sendir á Hörð Nikulásson sem smellir niður góðum þrist og jafnar 88-88. Þarna eru aðeins sextán sekúndur eftir og Ármann tekur leikhlé. Þeir koma boltanum á Daða Berg sem tekur skot en geigar og framlenging staðreynd. Í þessum síðasta leikhluta fóru Hörður Nikulásson og Halldór Gunnar Jónsson hamförum hjá ÍA-liðinu, Hörður setti niður 11 stig og Halldór var sjóðheitur og setti niður 15 stig. Hjá Ármanni var Halldór Kristmannsson með 8 stig en hann fékk sína 5. villu þegar fimm mínútur voru eftir og munaði um minna fyrir þá. Daði Berg Grétarsson var drjúgur og skoraði 9 stig.
 
Framlengingin byrjaði mjög jafnt og tölur sem sáust voru 91-90 og 93-93. En þá gáfu heimamenn í og lönduðu gríðarlega mikilvægum sigri 103-95.
 
Stigahæstir Skagamanna voru Hörður Nikulásson með 26 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Halldór Gunnar Jónsson gerði 21 stig og var með 8 stoðsendingar. Áskell Jónsson var með 20 stig og Dagur Þórisson setti niður 12 stig og var með 6 fráköst. Einnig átti Trausti Freyr Jónsson fínan leik með 11 stig og 8 fráköst sem og Sigurður Sigurðsson sem barðist vel og tók 8 fráköst.
 
Hjá Ármanni var Halldór Kristmannsson mjög góður með 22 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Daði Berg Grétarsson átti einnig góðan leik með 23 stig 5 stoðendingar. Svo var Þorsteinn Húnfjörð sprækur með 16 stig 8 fráköst.
 
 
Umfjöllun: Kolbrún Íris
Ljósmynd/ Samúel Ágúst: Frá viðureign ÍA og Ármanns á Akranesi í gærkvöldi.
Fréttir
- Auglýsing -