Keflavík og Njarðvík munu leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna þetta tímabilið og verður það í fyrsta sinn síðan árið 1997 sem ríkjandi deildarmeistarar leika ekki til úrslita um þann stóra.
Njarðvík sló út ríkjandi deildarmeistara Hamars í gærkvöldi 2-3 eftir oddaviðureign í Hveragerði. Þetta gerðist síðast árið 1997 þegar Keflavík varð deildarmeistari en tapaði 0-2 í undanúrslitum gegn Grindavík sem fór svo og varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina skiptið í sögu félagsins.
Þá hefur deildarmeistari orðið Íslandsmeistari síðustu átta tímabil í röð en árið 2002 varð KR Íslandsmeistari eftir að ÍS varð deildarmeistari.