spot_img
HomeFréttirHraður og skemmtilegur leikur í Röstinni

Hraður og skemmtilegur leikur í Röstinni

 
Það var hörkuleikur sem boðið var upp á í Röstinni í kvöld í Grindavík þegar KFÍ kom í heimsókn frá Ísafirði. Ísfirðingar byrjuðu af krafti og það mátti varla greina á milli hvort liðið væri nýliðar og hvort væri búið að vera í toppbaráttunni síðustu árin. Leikurinn var hraður strax á fyrstu mínutum og Ísfirðingar spiluðu ákveðna og harða vörn og fóru hratt úr vörn og sókn. Þegar 2 mínútur voru eftir af 1.leikhluta var KFÍ yfir með 7 stigum en Grindvíkingar náðu að minnka muninn niður í 2 stig áður en 2.leikhluti hófst.
KFÍ hélt áfram að spila af jafn miklum krafti í 2.leikhluta og það leit út fyrir að Grindavík ætti erfitt með að spila jafn hratt og hart og KFÍ leikmenn gerðu. Ítrekað gerðist það að Grindavík skoraði og áður en þeir vissu af var KFÍ-menn komnir yfir völlinn og búnir að skora í bakið á Grindvíkingum. Það var síðan ekki fyrr en rétt undir lok 2.leikhluta að Grindvíkingar náðu að komast yfir þegar Ármann Vilbergsson skoraði sína þriðju 3ja stiga körfu í leikhlutanum að Grindvíkingar komust yfir 54-53 en það var hinsvegar Edin Suljic sem skoraði síðustu körfu leikhlutans fyrir KFÍ sem leiddu 54-55 í hálfleik.
 
Síðari hálfleikur var jafn og skemmtilegur en Grindvíkingar náðu snemma í 3ja leikhluta undirtökum í leiknum og voru alltaf 2-5 stigum yfir. Leikurinn hélt áfram að vera hraður og skemmtilegur en þó verður að segjast að dómarar leiksins misstu tökin á leiknum í seinni hálfleik og var ekki hægt að tala um körfubolta sem leik án snertingar á tímabili. Vert er þó að nefna að þetta lenti nokkurn vegin á báðum liðum og augljóslega spila leikmenn eins hart og dómarinn leyfir.
 
Grindvíkingar unnu verðskuldaðan sigur í kvöld en KFÍ menn mega vera stoltir af sínu liði. Bæði lið voru að spila skemmtilegan og hraðan körfubolta og gaman var að fylgjast með bakvörðum beggja liða, Andre Smith hjá Grindavík og Craig Schoen hjá KFÍ.
 
Bestu leikmenn Grindavíkur voru Andre Smith (28 stig, 6 stoðs.), Ryan Pettinella (17 stig, 21 frákast), Guðlaugur Eyjólfsson (11 stig , 5 stoðs) og Ómar Örn Sævarsson (10 stig, 7 fráköst). Einnig áttu Ármann Vilbergsson og Þorleifur Ólafsson góðar innkomur af bekknum.
 
Hjá KFÍ voru það Craig Schoen (25 stig, 9 stoðs.), Edin Suljic (21 stig, 9 fráköst), Carl Josey (13 stig, 9 fráköst) og Nebojsa Knezevic (10 stig, 12 fráköst) sem stóðu sig best. Einnig var gaman að fylgjast með varnarleik Daða Bergs Grétarssonar.
 
Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Grindvíkinga talaði um að hans leikmenn hefðu virkað áhugalausir í fyrri hálfleik „en við tókum okkur á í seinni hálfleik og fórum að spila vörn eins og við getum gert og þá small þetta saman. KFÍ spilar svoldið hratt og það tók okkur heilan hálfleik að átta okkur á því að þeir bara hlaupa. En sigur er sigur og ég er sáttur við seinni hálfleikinn.“
 
B.J. Aldridge, þjálfari KFÍ, var nokkuð ánægður með sitt lið þrátt fyrir að vera ósáttur með tap. „Liðið mitt barðist vel og spilaði fast og hart, þeir börðust alveg til enda. Þetta var frábært lið sem við spiluðum við í dag, þeir eru vel þjálfaðir, flottir leikmenn og á heimavelli og það hjálpar stundum. Ég hlakka til að spila við þá aftur á okkar heimavelli. Við spilum mjög fasta og góða vörn og það er okkar einkennismerki, við viljum vera að spila brjálaða vörn og koma að leikmönnum úr öllum áttum – eins og iðandi býflugur. Láta fólk vita að við erum KFÍ og munum berjast af fullum krafti.
B.J. nefndi að íslenskur körfubolti væri skemmtilegur og hér væru margir góðir leikmenn og að Ísafjörður væri yndislegur staður til að vera á. „Ég er mjög ánægður hér á Íslandi og Ísafjörður er lítið samfélag þar sem allir standa saman, alveg eins og liðið okkar sem endurspeglar samfélagið, þar sem allir leggja sig 100% fram fyrir hvorn annan.“
 
Umfjöllun: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -