spot_img
HomeFréttirHoward varnarmaður ársins í NBA

Howard varnarmaður ársins í NBA

22:39:16
Dwight Howard, miðherji Orlando Magic, var í dag kjörinn varnarmaður ársins í NBA-deildinni. Howard, sem er yngsti leikmaðurinn frá upphafi til að hljóta þessa nafnbót, hlaut yfirburðakosningu, hlaut 542 stig og þar af 105 af 119 atkvæðum í efsta sætið en hópur körfuknattleiksblaðamanna og sjónvarpsspekinga hafa atkvæðisrétt í þessu vali.

 

LeBron James var í öðru sæti með 148 stig og Dwayne Wade var þriðja með 90 stig. Þar á eftir komu Shane Battier, Ron Artest, Chris Paul og Kobe Bryant.

Nánar hér að neðan…

 

Howard leiddi deildina bæði í vörðum skotum (2,9 í leik) og fráköstum (13,8 í leik), í ár, en hann er aðeins fimmti leikmaðurinn frá því að farið var að telja varin skot árið 1973, sem nær því marki. Hann er í góðum hópi því þar eru fyrir þeir Bill Walton, Kareem Abdul-Jabbar, Hakeem Olajuwon og Ben Wallace.

 

Howard sagði í viðtali að hann hafi nýlega rætt við Dikembe Mutombo og Patrick Ewing og við það tækifæri hafi Mutombo spurt hann: „Viltu vera þekktur sem troðslumeistrarinn í Súpermangallanum eða eitthvað annað og meira?“ Howard svaraði því til að hann vildi sanna sig sem einn af bestu leikmönnum allra tíma. Mutombo svaraði því til að það byrjaði allt í vörninni.

 

Fáir leikmenn í deildinni standast Howard snúning enda er hann bæði stór og mikill og líka léttur á fæti og með óviðjafnanlegan stökkkraft eins og hann hefur sannað í troðslukeppnum, en líka í vörninni. Andre Iguodala fékk að kynnast því í leik liðanna í fyrrakvöld þegar Howard stökk yfir liðsfélaga sinn og barði sniðskot Iguodala upp í stúku.

 

Iguodala sagði eftir leikinn að Howard væri ótrúlegur þar sem hann virtist geta dekkað tvo menn í einu. Hann bætti við í léttum tóni: „Og ef hann bætir sig eitthvað mikið meira þarf að fara að setja nýjar reglur til höfuðs honum.“

 

Howard hefur ekki beint verið þekktur fyrir að taka sjálfan sig mjög hátíðlega og klykkti út með því að hann vildi þakka liðsfélögum sínum fyrir að missa andstæðingana inn fyrir svo hann gæti varið skotin þeirra.

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -