Í nótt lauk biðinni. NBA deildin rúllaði af stað og voru þrír leikir á boðstólunum. New Orleans Pelicans, meistarar San Antonio Spurs og Houston Rockets nældu sér öll í sigra á þessum opnunardegi deildarinnar.
New Orleans 101-84 Orlando
Anthony Davis fór fyrir Pelikönunum með 26 stig og 17 fráköst en Tobias Harris gerði 25 stig og tók 8 fráköst fyrir Orlando. Davis og Asik voru illviðráðanlegir í kringum körfuna en saman skiluðu þeir 40 stigum, 34 fráköstum og 14 vörðum skotum.
San Antonio 101-100 Dallas
Grannaglíma af bestu sort en meistararnir höfðu það af með einu stigi! Chandler Parsons átti lokaskotið fyrir Dallas en það var líklegur þristur sem danglaði sér á hringinn og á braut svo meistararnir sluppu með skrekkinn. Tony Parker leiddi Spurs með 23 stig, 3 fráköst og 3 stoðsenidngar en Monta Ellis var með 26 stig og 6 stoðsendingar hjá Dallas.
Lakers 90-108 Houston
LA Lakers fengu að kenna á því á heimavelli. Nýliði Lakers, Julius Randle, varð að yfirgefa völlinn meiddur í sínum fyrsta leik en hann mun að öllum líkindum vera fótbrotinn. Howard og Kobe buðu upp í dans en það fór ekki mikið lengra en það. Endurkoma Kobe hófst því á tapleik en hann var þó stigahæstur sinna manna með 19 stig. James Harden setti niður 32 stig fyrir Hourston og gaf 6 stoðsendingar.
Mynd/ James Harden gerði 32 stig í Staples Center í nótt.