Framherji Hauka Hjálmar Stefánsson hefur samið við Aquimisa Carbajosa fyrir komandi tímabil. Carbajosa leikur í LEB Plata, sem er þriðja sterkasta deildin á Spáni.
Hjálmar hefur verið einn af lykilleikmönnum Hauka síðustu ár, en þá hefur hann einnig leikið með íslenska A landsliðinu. Fyrir Hauka skilaði Hjálmar 7 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik á síðasta tímabili.
Í samtali við Körfuna sagði Hjálmar það hafa komið honum nokkuð á óvart að honum hafi verið boðið að koma til Spánar og að hann hafi ekki getað annað en hoppað á það. Sagði hann þjálfara liðsins Jesus Gutierrez hafa haft samband við sig, sagt sér frá liðinu og hverju væri vonast eftir frá honum í því. Þá sagðist Hjálmar einnig geta spurt þjálfara sinn hjá Haukum, Israel Martin út í hluti ef hann þyrfti þess.
Hjálmar verður ekki eini íslendingurinn í liði Carbajosa, en fyrr í sumar samdi Garbæingurinn Tómas Þórður Hilmarsson einnig við liðið. Sagði Hjálmar það hafa hjálpað við að taka ákvörðunina:
“Við höfum verið i mjög góðum samskiptum síðustu daga, við höfum spilað nokkrum sinnum áður saman og móti hvor öðrum. Það auðveldaði mér mjög mikið að segja já við þessu tilboði og hlakka mjög mikið til að spila með honum”
Samkvæmt Hjálmari fara þeir Tóms út til liðsins þann 30. ágúst, en keppni í LEB Plata deildinni hefst í október.