Helgi Rafn Viggósson körfuknattleiksmaður og fyrirliði úrvalsdeildarliðs Tindastóls, var í gærkvöldi útnefndur Íþróttamaður Tindastóls fyrir árið 2010. Helga Þórsdóttir var útnefnd körfuknattleikskona Tindastóls. Helgi Rafn er fyrirliði úrvalsdeildarliðs Tindastóls í körfuknattleik og lék sitt besta keppnistímabil hingað til 2009-2010. Var hann valinn besti leikmaður liðsins af félögum sínum á lokahófi körfuknattleiksdeildar sl. vor. www.tindastoll.is greinir frá.
Helgi átti stóran þátt í því að liðið komst í úrslitakeppnina í fyrsta skiptið í mörg ár. Hann er þekktur fyrir að leggja sig fram bæði innan vallar og utan. Hann tekur virkan þátt í þeim fjáröflunum sem körfuknattleiksdeildin stendur fyrir og inni á vellinum er hann sannur leiðtogi og drífur samherja sína áfram með baráttuanda og fórnfýsi fyrir félag sitt. Þrátt fyrir erfiða byrjun Tindastóls í úrvalsdeildinni í haust, hefur Helgi hvergi slegið af og átt stóran þátt í þeim jákvæðu breytingum sem orðið hafa á leik liðsins undanfarið.
Helga Þórsdóttir var valin körfuknattleikskona ársins af körfuknattleiksdeildinni og fékk viðurkenningu fyrir það. Helga er ein efnilegasta körfuknattleikskona Tindastóls og stundar þessa dagana æfingar með æfingahópi U-16 ára landsliðsins sunnan heiða. Helga hefur verið lykilleikmaður í sínum aldursflokki og bjarta framtíð fyrir sér í íþróttinni. Það var bróðir hennar Pálmi Þórsson, sem tók við verðlaununum fyrir hennar hönd í gærkvöldi.
Þá fengu þau Pétur Rúnar Birgisson og Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir sérstakar viðurkenningar sem ungt og efnilegt körfuknattleiksfólk, en þau voru bæði valin í æfingahópa U-15 ára landsliða Íslands auk þess sem Þóranna var einnig valin til æfinga hjá U-16 ára liðinu. Bæði eru lykilmenn með sínum liðum í Íslandsmótinu og hafa leikið vel í vetur og eru í mikilli framför.